Níu tilnefningar bárust til íþróttamanns Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2025. Ljóst er að íþróttaárið var viðburðaríkt og árangursríkt í sveitarfélaginu og því úr vöndu að ráða við valið úr hópi þeirra afreksmanna sem tilnefndir eru.
Eftirtaldir aðilar hafa hlotið tilnefningu fyrir framúrskarandi árangur á árinu:
- Ale Zambrano (Knattspyrna): Ale var lykilmaður í liði Dalvíkur/Reynis í sumar og stýrði varnarleik liðsins af festu í 17 leikjum. Hann var valinn besti leikmaður sumarsins á lokahófi félagsins og þykir mikill leiðtogi og fyrirmynd bæði innan vallar sem utan.
- Aníta Ingvarsdóttir (Knattspyrna): Aníta kom inn í meistaraflokkslið Dalvíkur/Reynis af miklum krafti í sumar, aðeins 16 ára gömul. Hún spilaði 17 leiki í 2. deild kvenna, skoraði 11 mörk og lagði upp 8. Hún hefur verið valin í úrtökur fyrir landsliðshópa og þykir einn besti leikmaður deildarinnar þrátt fyrir ungan aldur.
- Bil Guðröðardóttir (Hestaíþróttir): Bil er Íþróttamaður Hrings 2025. Hún keppti í ungmennaflokki á fjölmörgum mótum, þar á meðal Landsmóti og Fjórðungsmóti. Hún komst oft í úrslit á hestunum Hrygg og Freddu og landaði meðal annars fyrsta sæti í úrslitum í fjögur skipti á árinu.
- Elín Björk Unnarsdóttir (Sund): Elín er þjálfari Sundfélagsins Ránar og öflugur iðkandi. Hún æfði markvisst fyrir Landsmót 50+ en varð fyrir því óláni að slasast stuttu fyrir mót. Með tilnefningunni er vakin athygli á sundíþróttinni í Dalvíkurbyggð og öflugu starfi hennar.
- Guðbjörg Ósk Sveinsdóttir (Snocross): Guðbjörg varð Íslandsmeistari kvenna í snocrossi árið 2025. Hún var einnig valin akstursíþróttakona ársins og nýliði ársins hjá Mótorhjóla- og snjósleðaíþróttasambandi Íslands og hefur verið dugleg að kynna íþróttina á jákvæðan hátt.
- Lovísa Rut Aðalsteinsdóttir (Blak): Lovísa, sem spilar með KA, átti gott tímabil þar sem liðið vann alla titla sem í boði voru: Íslands-, Bikar-, Deildar- og Meistaratitil Meistaranna. Hún er fyrirliði liðsins, miðjumaður og mikil fyrirmynd ungra íþróttamanna.
- Maron Björgvinsson (Golf): Maron stóð sig vel á árinu og varð meðal annars klúbbmeistari Golfklúbbsins Hamars (GHD) í júlí. Hann lék einnig með karlasveit klúbbsins sem keppti í 5. deild í Íslandsmóti golfklúbba.
- Torfi Jóhann Sveinsson (Skíði): Torfi keppir í alpagreinum og varð Bikarmeistari SKÍ 2025 í bæði fullorðinsflokki og flokki 18-20 ára. Hann hafnaði í 3. sæti í svigi á Íslandsmótinu og hefur bætt stöðu sína verulega á heimslista FIS. Hann þykir mikil fyrirmynd í brekkunum.
- Ægir Eyfjörð Gunnþórsson (Pílukast): Ægir sigraði „Dartung“ (Íslandsmót 18 ára og yngri) og vann sér sæti í Krystalsdeildinni, sem er efsta deild landsins. Hann var valinn í unglingalandsliðið og hefur unnið til verðlauna fyrir Pílufélag Dalvíkur.
Íbúum gefst tækifæri til þess að kjósa í gegnum þjónustugátt Dalvíkurbyggðar. Athöfnin verður svo lýst þann 17. janúar í Menningarhúsinu Bergi. Kosning stendur yfir til 12. janúar.


COMMENTS