Eyla Gimenez Gallego rekur í dag snyrtistofuna Señorita í miðbæ Akureyrar. Hún er 30 ára gömul og fæddist á Spáni en þegar hún ólst upp þar dreymdi hana um Norðurljósin á Íslandi. Hún lét drauminn um að heimsækja Ísland rætast árið 2018 og dvölin átti eftir að verða mun lengri en hana grunaði.
„Ég fæddist í Valencia á Spáni. Ég var alltaf heilluð af Íslandi og mig dreymdi um að heimsækja landið einn daginn til að sjá dansandi ljósin á himninum,“ segir hún í samtali við Kaffið.is.
Árið 2018 ákvað hún að sækja um sem au-pair á Íslandi án þess að vita mikið um menninguna í landinu.
„Til að vera alveg hreinskilin þá vissi ég lítið um landið á þeim tíma, fyrir utan Norðurljósin. Þegar ég fann íslensku fjölskylduna mína ákvað ég að upplifa Ísland án þess að rannsaka of mikið á Google. Ég vildi mynda mér mína eigin skoðun.“
Hún lenti á Íslandi 4. nóvember 2018 og settist í kjölfarið að á Akureyri. Hún segist enn mjög náin íslensku au-pair fjölskyldu sinni sem hún segir vera sína aðra fjölskyldu, þar sem dætur hennar kalla foreldrana ömmu og afa.
Áhugamálið varð að atvinnu
Ástríðan fyrir snyrtibransanum kviknaði snemma hjá Eylu. Sem unglingur var herbergið hennar vinsæll viðkomustaður fyrir djammið.
„Allar vinkonur mínar komu heim til mín í förðun og greiðslu áður en farið var út á lífið eða höfðu samband ef það voru viðburðir framundan. Ég elskaði að sjá sjálfstraustið þeirra vaxa og hversu ánægðar þær voru eftir á,“ segir hún.
Leiðin lá því beint í nám í förðunarfræði á Spáni og síðar starfaði hún sem förðunarfræðingur hjá KIKO Milano. Hún hefur síðan bætt við sig frekari sérhæfinu, þar á meðal lærði hún augnháralengingar og sprautubrúnku í Reykjavík, tannskreytingar (tooth gems) í Mílanó og sótti námskeið í „Lash lift“, „Brow lamination“ og „Airbrush“ tækni í Hollandi.
„Ég hef alltaf trúað því að ef þú gerir það sem þú elskar, þá þarftu aldrei að vinna og fyrir mér hefur það alltaf verið innan snyrtifræðarinnar. Á tímabili átti ég meira að segja erfitt með að rukka fyrir vinnuna mína því mér fannst svo gaman að gera þetta,“ segir hún kímin.
Móðurhlutverkið og reksturinn
Hún opnaði stofuna Señorita á Akureyri í maí 2025. Nafnið segir hún að sé tilkomið vegna að það gefur til kynna uppruna hennar og sömuleiðis noti hún orðið um nánar vinkonur og dætur sínar. Aðspurð um stærstu áskoranirnar stendur ekki á svörum: Jafnvægið.
„Satt að segja er ég enn að vinna í því. Stærsta áskorunin hefur verið að finna jafnvægi. Ég er móðir tveggja stúlkna, fjögurra og tveggja ára, og ég vinn einnig hlutastarf hjá Norðurorku.“
Hún segist gjarnan vilja geta helgað sig rekstrinum alfarið en það sé vandasamt. „Á meðan ég er enn að læra allt sem fylgir því að reka fyrirtæki er ég með opið frá 14:00 til 23:00. Því miður þýðir það að suma daga hitti ég dætur mínar minna en ég myndi vilja.“



Brúðkaup og persónuleg tengsl
Það sem gefur henni mest í starfinu eru tengslin við viðskiptavinina, og þá sérstaklega í kringum stóra viðburði eins og brúðkaup.
„Ég býð upp á brúðkaupspakka og ferlið verður oft mjög persónulegt. Ég kynnist kúnnunum, fæ að heyra öll smáatriðin um stóra daginn og sé svo myndirnar eftir á þar sem sjálfstraustið skín í gegn. Að vita til þess að ég hafi átt þátt í þessari stundu gerir mig ótrúlega stolta.“
Markmið hennar er að skapa þægilegt andrúmsloft. „Mig langar að öllum sem koma til mín líði jafn vel og vinkonum mínum leið í svefnherberginu mínu heima á Spáni.“
Engar reglur í fegurð
Hún segir hugmyndafræði sína einfalda, að allir séu fallegir. „Snyrtivörur eru öflug verkfæri en viðhorfið og sjálfstraustið er það sem fullkomnar útlitið og er í raun rjóminn ofan á kökuna,“ segir hún og bætir við einu góðu ráði til lesenda:
„Það eru engar reglur þegar kemur að fegurð. Notaðu það sem þú elskar. Kannski verður það til þess að þú setur nýtt „trend“ fólk mun fylgja þér einfaldlega vegna þess að þú berð útlitið með sjálfstrausti.“
Señorita er staðsett í Sjallanum (gengið inn um sama inngang og í Partýland). Þar býður hún upp á förðun, augnháralengingar, „Lash lift“, brúnkumeðferðir og tannskreytingar. Tekið er við tímapöntunum í gegnum noona.


COMMENTS