Knattspyrnukonan Arna Sif Ásgrímsdóttir hefur skrifað undir tveggja ára samning við Þór/KA. Hún kemur til félagsins frá Val þar sem samningur hennar er að renna út.
Arna Sif er reynslumikill leikmaður sem er uppalin hjá félaginu og hefur áður leikið 12 tímabil með Þór/KA. Hún var meðal annars fyrirliði liðsins þegar það varð Íslandsmeistari árið 2012. Hún hefur einnig leikið erlendis, í Svíþjóð og á Ítalíu, auk þess að eiga að baki 19 A-landsleiki fyrir Ísland. Arna Sif sneri nýverið aftur á knattspyrnuvöllinn eftir krossbandaslit og barnsburðarleyfi.
„Stjórn Þórs/KA býður Örnu Sif velkomna aftur í okkar raðir. Það er mikið fagnaðarefni fyrir félagið og ekki síst yngri og reynsluminni leikmenn í okkar röðum að fá þessa öflugu og reynslumiklu knattspyrnukonu í okkar raðir. Hún á vafalaust eftir að reynast félaginu mikill styrkur, innan sem utan vallar, og væntum við mikils af henni,“ segir á vef félagsins.


COMMENTS