Berglind Ósk Guðmundsdóttir, fyrrverandi alþingismaður, tilkynnti í morgun að hún myndu gefa kost á sér í oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor. Heimir Örn Árnason, núverandi oddviti, hafði áður tilkynnt að hann gæfi kost á sér áfram. Í tilkynningunni segir Beglind:
Akureyri er heimabærinn minn. Hér á ég rætur, hér vil ég ala upp börnin mín þrjú og hér vil ég vinna að sterku og traustu samfélagi til framtíðar.
Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Ég tek það hlutverk alvarlega og ég geri það af heilum hug.
Málefni fjölskyldunnar eru mér ofarlega í huga. Sveitarfélagið þarf að styðja við fjölskyldur á öllum æviskeiðum – börn, fjölskyldur og eldri borgara, með öflugri þjónustu, góðum skólum og umhverfi sem styður bæði virkt atvinnulíf og góð lífsskilyrði alla ævi.
Sterkt atvinnulíf er forsenda velferðar. Akureyri á að vera sveitarfélag þar sem fólk hefur tækifæri til að vinna, skapa og byggja upp. Ég vil leggja áherslu á sterkt og fjölbreytt atvinnulíf, góð skilyrði fyrir fyrirtæki og frumkvöðla og samvinnu við atvinnulífið um áframhaldandi uppbyggingu.
Fjármál sveitarfélagsins tengja þetta allt saman. Rekstur Akureyrarbæjar hefur verið á góðri leið undanfarin ár, en það má alltaf gera betur. Ég tel mikilvægt að halda áfram á ábyrgri braut, nýta fjármuni skynsamlega og forgangsraða þannig að fjárfestingar í fjölskyldum og atvinnu skili raunverulegum árangri til framtíðar.
Sem lögfræðingur og fyrrum þingmaður hef ég reynslu af ákvarðanatöku, lagasetningu og ábyrgri stjórnsýslu. Ég veit að góð forysta byggir á trausti, fagmennsku og skýrri sýn en líka á hlýju, samvinnu og því að hafa gaman af því að vinna saman að sameiginlegum markmiðum.
Ég vil leiða öflugan lista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri og vinna með góðu fólki að sterku, framsýnu og fjölskylduvænu bæjarfélagi.


COMMENTS