Björnis brunabangsi mætir á Glerártorg

Björnis brunabangsi mætir á Glerártorg

Björnis brunabangsi verður í heimsókn á Glerártorgi næstkomandi sunnudag, 21. desember. Þar gefst börnum og öðrum áhugasömum tækifæri til að hitta þennan vinsæla bangsa, en hann verður á svæðinu í tvígang yfir daginn milli klukkan 11:30 og 12:30 og aftur milli klukkan 16:00 og 17:00. Öll börn sem vilja heilsa upp á Björnis eru hvött til að mæta.

Björnis flutti til Íslands frá Þrándheimi í Noregi í ágúst síðastliðnum og leiðir Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins verkefnið þar sem bangsinn er öllum slökkviliðum landsins til aðstoðar við mikilvægt fræðslu- og forvarnarstarf, sérstaklega þegar kemur að öryggi yngstu kynslóðarinnar.

Mörg íslensk börn þekkja Björnis, eða Bjössa brunabangsa, nú þegar vel úr sjónvarpsþáttum á RÚV sem hafa slegið í gegn. Um er að ræða stórt og metnaðarfullt verkefni sem ætlað er að stuðla að bættum brunavörnum á heimilum landsmanna til framtíðar.

COMMENTS