Brák Jónsdóttir semur við Flóru menningarhúsLjósmynd: Kristín Þóra Kjartansdóttir

Brák Jónsdóttir semur við Flóru menningarhús

Brák Jónsdóttir, myndlistarmaður, hefur samið við Flóru menningarhús um gerð nýrra myndlistarverka og sýningu á þeim í Menningarhúsi í Sigurhæðum á árinu 2026. Brák hefur nú þegar hafist handa við gerð verkanna og mun í maí ásamt fagteymi Sigurhæða vinna að framsetningu þeirra á staðnum. Sýning ársins 2026 opnar síðan í lok maí.

„Nýgerð myndlist er veigamikill hluti af menningarstarfsemi í Sigurhæðum og einn kjarna þáttur í að skapa frjótt samtal við menningararf staðarins og húsið Sigurhæðir sem á sér jú sinn góða stað í hjörtum landsmanna, bæjarmynd og ásýnd Akureyrar og menningararfi landsmanna. Verk núlifandi myndlistarmanna í Sigurhæðum eru því innan um safngripi og verk og vörur eftir skapandi aðila, nýtt og notað og til verða nýjar tengingar, hugrenningatengsl og forvitnileg sjónarhorn. En líka flæði milli ólíkra tíma og menningarsvæða,“ segir í tilkynningu frá Flóru.

Brák er fædd árið 1996 og hlaut árið 2024 Hvatningarverðlaun íslensku myndlistarverðlaunanna. Hún lauk B.A. námi í myndlist við Listaháskóla Íslands árið 2021 og stundar nú meistaranám við Listaakademíuna í Bergen, Noregi. Með innsetningum sem vistkerfi, leitast hún eftir að kjarna margar af mikilvægari spurningum samtímans um tengsl manns og náttúru, vaxtarferli og hlut ímyndunaraflsins í sköpun veruleika á jaðri hins mögulega og ómögulega. Jafnframt vonast hún til að vekja upp spurningar sem kveikja á ýmsum af þeim stöðvum í líkamshylkinu sem framkalla bæði erfið og ánægjuleg tilfinningaviðbrögð og bjóða áhorfendum að endurskoða tengsl sín við umhverfið.

Hægt er að sjá meira um Brák á www.brakjonsdottir.com.

COMMENTS