Byggja nýtt fjölbýlishús fyrir tekjulægra fólk á AkureyriGudmannshagi 2 Mynd: Eining-Iðja

Byggja nýtt fjölbýlishús fyrir tekjulægra fólk á Akureyri

Fyrir helgi hófust framkvæmdir á nýju fjölbýlishúsi við Gudmannshaga 2 á Akureyri þar sem fyrirtækið Lækjarsel ehf. mun byggja hús fyrir Bjarg íbúðafélag. Félaginu er ætlað að veita tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að íbúðarhúsnæði í langtímaleigu og er rekið án hagnaðarmarkmiða. Eining-Iðja greindi frá framkvæmdinni í fréttatilkynningu.

31 íbúð tilbúin á næsta ári

Fyrir ári síðan undirrituðu Akureyrarbær og Bjarg íbúðarfélag viljayfirlýsingu um byggingu 75 íbúða á Akureyri. Síðan þá hefur undirbúningur og hönnun fjölbýlishússins staðið yfir en nú eru framkvæmdir hafnar. Í húsinu verður 31 íbúð sem allar eru í smærri kantinum frá eins til fimm herbergja. Fyrstu fjórar íbúðirnar verða afhentar Bjargi í ágúst 2020 og síðan næstu 27 í nóvember sama ár. Byggingin sjálf er á þremur hæðum með lyftu og stigahúsi. Arkitektar hjá Tendra Arkitektum teiknuðu húsið en verkfræðingarnir eru frá AVH á Akureyri. Rafhönnun hússins er í höndum Raftákns og um lóðarhönnun sér teiknistofan Storð efh. 

Opnað verður fyrir umsóknir þegar nær dregur afhendingu. Á heimasíðu Bjargs má finna ýmsar upplýsingar um félagið, m.a. hvernig á að sækja um íbúð og eins má finna þar fjölda svara við ýmsum spurningum sem geta komið upp ef þú ert að hugsa um að sækja um íbúð hjá Bjargi .

UMMÆLI