Markaðsdeild flugfélagsins easyJet hefur að undanförnu unnið að nýju kynningarefni um Norðurland í samstarfi við Markaðsstofu Norðurlands. Markmiðið er að vekja athygli á áfangastaðnum í tengslum við beint flug félagsins frá Bretlandi en undanfarnar vikur hefur sérstök áhersla verið lögð á flugið frá Manchester ásamt fluginu frá London.
Liður í markaðsaðgerðum flugfélagsins var heimsókn breska áhrifavaldsins Somhairle til Norðurlands í nóvember. Markaðsstofa Norðurlands setti saman dagskrá í samstarfi við ferðaþjónustuaðila á svæðinu en ferðin var að fullu á vegum easyJet. Afrakstur þeirrar heimsóknar birtist á samfélagsmiðlum easyJet og áhrifavaldsins í byrjun desember.
Þá hafa nýverið birst kynningargreinar um svæðið í The Sunday Times, unnar af markaðsdeild easyJet og NewsUK. Greinarnar voru unnar í samráði við Markaðsstofu Norðurlands en lokaorðið er þó alltaf hjá easyJet og þeirra áherslur í markaðsefninu skína í gegn. Greinarnar eru nú í birtingu og keyptum auglýsingum víðsvegar á vefnum.


COMMENTS