Endurbyggð Torfunefsbryggja tekin í notkun

Endurbyggð Torfunefsbryggja tekin í notkun

Ný Torfunefsbryggja var formlega tekin í notkun í morgun þegar togarinn Björg EA lagðist að bryggju. Með því hefur nýtt hafnarsvæði verið opnað í hjarta bæjarins, þar sem fólk getur komið saman og notið þess að vera í nálægð við hafið.

Á svæðinu er gert ráð fyrir fjölbreyttri starfsemi, þar á meðal veitingastöðum og verslunum. Minni skemmtiferðaskip, svokölluð „expedition“-skip, geta einnig lagt að bryggju. Fyrsta slíka skipið, Le Champlain, er væntanlegt að kvöldi föstudags þegar það siglir inn Eyjafjörðinn.

Framkvæmdir við bryggjuna hófust snemma árs 2023 og sá verktakinn Árni Helgason ehf. um framkvæmdina. Að deiliskipulagi svæðisins stóðu Nordic Office of Architecture í samstarfi við Hafnasamlag Norðurlands. Svæðið markar tímamót í þróun hafnarsvæðisins á Akureyri og styður við framtíðarsýn um fjölnota samkomusvæði þar sem náttúra og borgarumhverfi mætast.

„Þetta er stór dagur fyrir okkur Akureyringa. Þetta er stór áfangi fyrir okkur að fá ‏þetta svæði sem verður vonandi eins og Aker brygge í Ósló, iðandi af mannlífi og skemmtilegheitum. Svæðið verður góð viðbót við miðbæinn okkar. Mér finnst afskaplega viðeigandi að þetta glæsilega skip hafi verið fyrst til að leggjast að endurgerðri Torfunefsbryggju. Til hamingju Akureyringar,“ segir Ásthildur, en ávarpið var birt á vefsíðu Samherja þar sem Guðmundur Freyr Guðmundsson skipstjóri á Björgu EA sagði einnig:

„Akureyri er útgerðarbær og því viðeigandi að akureyskt skip vígi þetta mannvirki. Björg EA er glæsilegt vel búið skip og áhöfnin sem var með mér í þessu verkefni gerði það með ánægju og stolti. Ég óska Akureyringum til hamingju með endurgerða Torfunefsbryggju og það verður spennandi að fylgjast með frekari framkvæmdum hérna á svæðinu. Þetta er ánægjulegur dagur, sem eflaust verður lengi í minnum hafður. Ég þakka Hafnarsamlagi Norðurlands fyrir að bjóða okkur að vígja bryggjuna.“

Mynd/Samherji

COMMENTS