Friðarganga Vonarbrúar fór fram þann 23. desember og komu yfir 60 manns til þess að ganga fyrir friði, von og samhug. Hér fyrir neðan er ávarp Kristínar S. Bjarndóttur hjúkrunarfræðings og stofnanda Vonarbrúar.
Heil og sæl, kæru hjartans þið, sem eruð hér samankomin á Þorláksmessu.
Friður og frelsi. Hversu falleg og hljómfögur orð og merking?
Hversu dásamleg væri veröldin ef hvert og eitt okkar í þessum heimi myndi rækta með sér, af heilum hug og hjarta, kærleika af slíkri einurð að hann yrði grundvöllur virðingar, friðar og frelsis fyrir öll?
Já það er hollt að láta sig dreyma. Það er eflandi að eiga sér draum, og sýn, um frið á jörð. Þó verkefnið sé stórt og ill yfirstíganlegt í raun, þá megum við aldrei gleyma að hvert og eitt okkar höfum við hjarta, huga og rödd, sem við getum, og eigum, að nýta í friðarins þágu.
Við þurfum að muna að engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn. Og að dropinn holar steininn. Að sérhvert andartak, sérhver stund, sem við verjum í anda kærleika og í þágu mannúðar og friðar, mun að öllum líkindum gagnast einhverjum. Og þá er til mikils unnið.
Friðurinn hefst hið innra. Kærleikurinn er rótin sem friðurinn sprettur upp af. Sjálfsprottinn að hluta en þessi viðkvæma alheims urt friðarins
þarf vökvun og umhyggju í samfélagi fólks. Til að þrífast og blómstra.
Ekkert okkar er eyland. Við lifum og nærumst í samfélagi, í flæði sem er okkur öllum nauðsynlegt í öllum sínum hæðum og lægðum manneskjulegrar tilveru. Kærleikurinn nær fyrst flugi þegar hann fær að svífa frjáls frá hjarta til hjarta. Og sá um leið nýjum friðarfræjum sem taka sér bólfestu í brjósti, næra þar og efla í anda mannúðar, friðar og frelsis.
Við erum aldrei meiri boðberar friðar en þegar við erum í góðum tengslum við tilfinningar okkar og hinn tæra kraftmikla kærleika í okkar eigin garð og annarra. Staðföst og sterk í sjálfum okkur, fullviss um þann sannleika að það er nóg pláss fyrir okkur öll. Galopin fyrir siðum og venjum annarra. Áhugasöm um velferð annarra. Við það dýpkar næmi okkar fyrir því sem er,
samhygðin vex og nýjar víddir opnast.
Réttlætiskenndin verður þá hreyfiaflið og drifkrafturinn, og friðarfræin geta svifið enn lengra, yfir lönd og höf. Taka ekkert tillit til landamæra, regluverka eða mismunandi trúar. Enda hverju skiptir það, kærleikur er kærleikur. Mannréttindi eru mannréttindi.
Og sem ég stend hér með ykkur í þessari draumsýn, sem gefur mér og vonandi einhverju ykkar líka, byr undir báða vængi, þá allt í einu leitar hugurinn í andhverfu þessa alls. Andstæðuna við þetta þekkjum við og hún hefur því miður birst okkur ítrekað hér og þar um heiminn, í mis langan tíma, í sínum allra verstu myndum. Og alltaf með skelfilegum afleiðingum fyrir hundruð þúsunda manneskja. Stríð hér og stríð þar.
Að ekki sé minnst á þaulskipulgt, yfirlýst þjóðarmorð, sem viljann vantar til að stoppa af. Auðvitað vantar líka samtakamátt yfirvalda heimsins en hann kæmi af sjálfu sér ef viljinn væri einbeittur. Ef kærleikur væri til staðar í því magni að öll líf væru virt til jafns. Ef viljinn til góðverka og friðsemdar væri rótgrónari og yfir það hafinn að hagræða mannúðar sjónarmiðum og alþjóðalögum eftir hörundslit og trú þolenda.
Grimmdin, græðgin, innrætingin, rasisminn, lygarnar, peningavöldin, þungavopnin, pyntingartólin, siðblindan, vinagreiðar valdafólks, egóið – þetta ætlar allt að drepa.
Mér verður hugsað til Nenu og fjölskyldu sem kom hingað til Akureyrar sem flóttakona frá Serbíu, nú látin ásamt eiginmanni sínum, frá uppkomnum börnum þeirra hjóna.
Mér verður hugsað til Reemar sem kom hingað hingað til Akureyar sem unglingur á flótta frá Sýrlandi með fjölskyldu sinni. Yfirbuguð af sorg, angist og áfallastreitu stóð hún upp og hélt svo áhrifaríka ræðu í afmælinu mínu fyrir sjö árum að engin sem þar voru munu gleyma þeirri stundu.
Mér verður hugsað til Valentynu sem kom hingað til Akureyrar á flótta frá Úkraínu og kemst enn ekki heim aftur.
Mér verður hugsað til Mohammeds frá Gaza sem kom hingað til Akureyrar sem flóttamaður. Vísað frá Svíþjóð, þó hann ætti þar orðið eiginkonu og þrjú börn þá þegar. Hver stíar fjölskyldum sundur með þessum hætti?
Hvers á fólk að gjalda, að þurfa að búa við stríðsátök og þurfa svo að rífa sig upp með rótum og flýja út í fullkomna óvissu? Og fólkið á Gaza fær ekki einu sinni að flýja. Það á að gjöreyða því.
Hver kemur svona fram við fólk?
Jú, það eru þau hin sömu og þola ekki flóttafólk í sínu landi. Tala um “flóttamannavanda” eins og hann sé einstakur “vandi” óskyldur öllu sem á gengur, sprottinn upp af sjálfum sér, orsök alls ills en ekki afleiðing illvirkja, stríðsglæpa og aftökusveita þjóðarmorðingja.
Mér verður hugsað til þolenda fólskulegs ofbeldis og morða í Súdan og á Gaza, þar sem fólk býr við skelfilegri aðstæður en við getum nokkurn tímann skilið. Við bættust enn og aftur stórfelldar árásir Rússa á Úkraínu í nótt.
Við skulum senda okkar sterkustu strauma og ljós með hlýrri von til allra stríðshrjáðra, hvar sem þau eru í veröldinni.
Réttlætiskennd okkar getur virkjað sköpunarkraft, sem þarf til að hugsa í lausnum þegar aðrar eins manngjörðar hörmungar standa yfir. Hvað getum við gert? Við skulum heita okkur því að standa alltaf með hinum kúguðu en ekki með kúgaranum. Í slíkri ákvörðun og einlægri afstöðu felst siðferðislegt heilbrigði og hugrekki. Já, því það þarf hugrekki.
Og verðum við áhyggjufull og þreytt vegna sífelldra frétta af hörmunugm, ekki hleypa dofanum og vonleysinu að um langa stund. Hugsum heldur, hvað get ég gert? Það breytir hugsuninni, líðaninni og gefur nýjan kraft.
Þau eru mörg á Gaza sem vita af friðargöngum á Íslandi í dag, hugur þeirra er hjá okkur. Neyð þeirra er ólýsanleg nú um vetur, matarlítil með börnin sín í vosbúð, háð framlögum velviljaðra úti í heimi. Það er staðreyndin. Ungir foreldrar með börn sín, flestir foreldranna fæddir fyrir og eftir1990. Þau gætu aldursins vegna verið dætur mínar og synir og kalla mig flest mömmu. Fyrir það eitt að hafa rétt út hjálparhönd, sýnt skilning og samkennd, Fyrir að hafa ekki yfirgefið þau í neyð þeirra, eins og þeim finnst stjórnvöld heimsins hafa gert. Það er okkar allra að hafa áhrif á stjórnvöld til aðgerða.
Hjartans þakkir til ykkar allra hér sem hafið komið að því með mér með einhverjum hætti að byggja þessa brú sem undirstöðu vonar. Vonarbrúna sem styrkt hefur fleiri hundruð manneskjur til að reyna að komast af í þjóðarmorði, þar með talið stóran hluta börn..
Takk fyrir samstöðuna, takk fyrir samhygðina og kærar þakkir til ykkar sem standið fyrir friðargöngunni og þessari stund hér í dag.
Takk öll kæru, fyrir að rækta friðinn hið innra og hið ytra.
Gleðileg jól.


COMMENTS