Kaffið greindi áður frá því í apríl að væntanleg væri fimm bóka sería eftir Giorgio Baruchello, prófessor við Félagsvísindadeild háskólans. Á vef háskolans kemur fram að nú sé hægt að nálgast fyrstu bókina á Amazon, þar segir einnig:
Bækurnar eru heimspekileg bókmenntaverk og eru gefnar út af Northwest Passage Books í Kanada. Giorgio bjó í Guelph í Ontario, Kanada þegar hann var við doktorsnám og það er gaman að segja frá því að hann lætur öll höfundarlaun sín renna til góðgerðasamtaka í þeirri borg.
Fyrsta bókin er nú komin út og verða þær gefnar út til ársins 2027. Í bókaflokknum má finna texta sem spannar gamanleikrit, háðsádeilur, smásögur og nóvellur. Stíllinn er oftast skoplegur og léttur en í textunum birtist einnig sýn á alvarlegri og fullorðins málefni, sérstaklega hvernig húmor tengist grimmd í samtímanum og mannlífi almennt. Stíll Giorgio hefur verið borinn saman við Plautus, Leacock, Beckett, Ionesco, the Goons, Queneau, McLean og Umberto Eco. Meginmarkmiðið er að láta lesendurna hugsa en þó án þess að segja þeim hvað þau eigi að hugsa, þ.e. án þess að prédika eða draga úr fjölda hugsanlegra sjónarmiða.
Á bakvið nýju bókaröðina standa fjölmargar heimspekilegar rannsóknir Giorgios allt frá árinu 1998 um náttúru- og manngerða grimmd, þar á meðal fræði- og félagsvísindalega fjögurra binda bókaröðin „Húmor og grimmd“ (Berlín: De Gruyter, 2022–2024), birt ásamt Ársæli M. Arnarssyni, prófessor og líffræðilegum sálfræðingi við Háskóla Íslands.
Hver bók verður einstök að útliti, með frumlegum kápum, skreyttum listaverkum eftir þekkta alþjóðlega ljósmyndara – þar á meðal Armando Gallo, Alberto Terrile, Agata Wilczyńska og Veroniku Korchak.


COMMENTS