Í tilefni af Akureyrarvöku 2025 er GLUGGINN í Hafnarstræti 88 í ástarhug og sýnir rómantíska útilegu þar sem andi fortíðar sveimar yfir.
Auðvelt er að ímynda sér gróskumikla laut þar sem elskendur hafa tjaldað. Þvottur blaktir milli trjágreina og súpa með nýuppteknum kartöflum, sveppum og skessujurt mallar yfir eldstæði. Þar við hlið stendur blómaskreyttur baukur með safaríkum bláberjum og lofar unaðsstund í eftirrétt.
Systurnar Brynja Harðardóttir Tveiten myndlistarkona og Áslaug Harðardóttir Tveiten sem rekur skrautmunasöluna ´Fröken Blómfríður´ eiga heiðurinn af sýningunni .Systurnar vonast til þess að hún ylji fólki um hjartarætur, veki kátínu og skapi sögur í hugum þeirra sem njóta.
Sýningin er aðgengileg vegfarendum allan sólarhringinn þar sem hennar er notið utan frá séð frá 29.ágúst til 15. september.
Laugardaginn 29. ágúst milli 15-17 verða systurnar á staðnum og heilsa upp á gesti.


COMMENTS