Hver verður Norðansprotinn 2025?

Hver verður Norðansprotinn 2025?

Norðansprotinn er nýsköpunarkeppni þar sem leitað er að áhugaverðustu nýsköpunarhugmyndum Norðurlands. Leitin hefur verið í fullum gangi og bárust 22 umsóknir að þessu sinni. Úr þessum 22 verkefnum hafa verið valin 8 verkefni sem verða kynnt á lokaviðburði Norðansprotans, þar
sem dómnefnd mun velja Norðansprotann 2025. Lokaviðburðurinn er haldinn í Drift EA á Akureyri
23. maí kl.17:00 og er opinn fyrir öll – skráning fer fram hér.

„Það er mjög ánægjulegt að sjá gróskuna í nýsköpunarumhverfinu á Norðurlandi og frábært
að fá 22 flottar skráningar í Norðansprotann. Við samstarfsaðilarnir vinnum markvisst að því að efla vistkerfi nýsköpunar á Norðurlandi því við trúum því að nýsköpun, hugvit og frumkvöðlastarf séu forsenda verðmætasköpunar, atvinnumöguleika og öflugs samfélags. Það á að vera alveg dásamlegt að búa hér og það er það svo sannarlega, en við verðum að taka inn í myndina áskoranirnar sem við búum við – hvernig getum við tekið málin í eigin hendur og skapað það samfélag sem við viljum sjá fyrir okkur og afkomendur okkar? Við viljum efla kraftinn í fólkinu okkar hér á Norðurlandi – það eiga allir að hafa trú á eigin getu og verkfæri til að skapa og koma góðum hugmyndum af stað.“ segir Svava Björk Ólafsdóttir,
verkefnastjóri frumkvöðla og nýsköpunar við Háskólann á Akureyri.

Þau teymi sem munu fá tækifæri til að kynna verkefni sín og heilla dómnefndina eru:

  • DriftSensor 1.0 – Snjallt neðansjávar kerfi sem sameinar gervigreindar myndgreiningu og
    umhverfisgögn til að bæta velferð og auka framleiðni í fiskeldi.
  • Þin eign – Öruggur og notendavænn aðgangur að rafrænu svæði þar sem skráðar eru
    haldbærar upplýsingar um viðhald fasteigna.
  • Lúpína – Trefjar framtíðar úr náttúrunni. Nýting trefja úr stilkum lúpínu til framleiðslu á
    náttúrulegu textílefni.
  • Norðursnakk – Verkefni sem sameinar íslenskan uppruna, gæði og frumleika í íslensku snakki
    úr til dæmis harðfiski, þorskroði og byggi.
  • NorðanStraumur / StreamNorth – Auglýsinga og streymis vettvangur á netinu sem varpar
    ljósi á viðburði, afþreyingu og umhverfi á Norðurlandi – í beinni og eftir á.
  • Galdur Frame – Skjálaus tæknileg nálgun á todo-listann fyrir fjölskyldur, vinnustaði og fleiri
    mögulega notendur.
  • Korg Kaffibrennsla – Korg kaffibrennsla stefnir á að byggja upp garðyrkjustöð og nýta þann
    kaffikorg og hysmi sem fellur til við kaffibrennslu og kaffibrugg til ræktunar á matsveppum.
    Auk þess gera tilraunir á hvort nýta megi heitan útblástur úr kaffibrennslu til að hita upp
    gróðurhús.
  • STEM Heima – STEM Heima er nýstárlega og áhrifarík leið til að efla STEM menntun fyrir
    fjölskyldur á Íslandi. Með einföldum, skapandi og skemmtilegum áskorunarpökkum er
    verkefninu ætlað að styrkja tengsl innan fjölskyldunnar og byggja upp mikilvæga færni fyrir 21. öldina.

Norðansprotinn er hluti af nýsköpunarferðalagi Norðurlands sem er ætlað að vera leiðarvísir
frumkvöðla frá hugmyndarstigi að fjárfestingu. Norðansprotinn er samstarfsverkefni SSNE, SSNV,
Háskólans á Akureyri, Háskólans á Hólum, Drift EA, Eims og Hraðsins með veglegum stuðningi
frá Upphaf fjárfestingasjóði, sem mun veita verðlaunafé til Norðansprotans.
„Það er okkur ánægja að styðja við frumkvöðla sem eru að taka sín fyrstu skref í gegnum
Norðansprotann“ segir Sverrir Gestsson framkvæmdastjóri Upphafs fjárfestingasjóðs, en sjóðurinn
sem er í eigu KEA og fjárfestir í nýsköpunarverkefnum á Norðurlandi eystra.

COMMENTS