Akureyrarbær vekur athygli á því að íþróttahúsið Boginn stendur opið öllum virka morgna, frá klukkan 08:00, fyrir þá sem vilja stunda hreyfinguna í hlýju og öruggu umhverfi.
Héðinn Svarfdal, verkefnastjóri lýðheilsumála hjá Akureyrarbæ, bendir á að regluleg ganga hafi margvísleg jákvæð áhrif. „Með reglulegri göngu, jafnvel í stutta stund í senn, má bæta jafnvægi, styrkja vöðva og bein, draga úr líkum á byltum og viðhalda sjálfstæði til lengri tíma. Hreyfing hefur einnig jákvæð áhrif á hjarta- og æðakerfið, svefn, minni og líðan,“ segir Héðinn og nefnir einnig mikilvægi félagsskaparins.
Fastagestir í Boganum taka undir þetta og hvetja fleiri til að nýta aðstöðuna. „Hér er engin hálka – það er bara um að gera að koma,“ sögðu göngugarpar sem rætt var við en fyrir heimsfaraldur voru allt að 40 manns sem nýttu sér aðstöðuna á morgnana. Sumir ganga fáeina hringi á meðan aðrir dvelja lengur við æfingar.


COMMENTS