Jólagarðurinn í Eyjafjarðarsveit: „Jólin geta verið allskonar“

Jólagarðurinn í Eyjafjarðarsveit: „Jólin geta verið allskonar“

Margir leggja leið sína í Jólagarðinn í Eyjafjarðarsveit þegar líða fer að jólum. Raunar er garðurinn vinsæll áningarstaður allt árið um kring. Fréttaritara Kaffið.is lék forvitni á að vita meira um þennan fjölskyldurekna ævintýrastað og ræddi við eigendurna um upphafið, reksturinn, stemninguna og jólin. 

Mögulega mest spennandi vinnustaður í heimi?

Jólagarðurinn varð til fyrir um þremur áratugum síðan og voru eigendurnir þá ungt fólk með ört stækkandi fjölskyldu. 

„Það er nú nokkuð farið að snjóa yfir það hvernig hugmyndin að Jólagarðinum varð til. Við álitum sem svo að gott væri fyrir ungviðið að hafa nóg fyrir stafni í uppvextinum og sáu kannski að þetta væri ef til vill gott viðfangsefni, eitthvað sem allir gætu sameinast um. Jólin væru jú eitthvað sem nánast allir hlökkuðu til, hvað gæti verið meira spennandi vinna?“, segir einn eigandi Jólagarðsins, Ragnheiður Hreiðarsdóttir.

Jólin í raun freistandi starfsvettvangur fyrir ungt og áhugasamt fólk

Jólagarðurinn hefur eðli málsins samkvæmt alltaf verið fjölskyldufyrirtæki. Ragnheiður og Benedikt Grétarsson, auk dóttur þeirra Margrétar Veru, sjá um allan daglegan rekstur. Reksturinn hefur þó á sér margar krefjandi og ólíkar hliðar og þar af leiðandi eru fleiri fjölskyldumeðlimir sem leggja hönd á plóg. Það er þessi góði hópur af fólki sem er ástæðan fyrir velfarnaði staðarins síðastliðin ár.

„Auk þess hefur Jólagarðurinn notið mikillar gæfu þegar kemur að starfsfólki og er staðurinn ríkur af ómetanlegum starfskröftum sem fylgt hafa starfseminni svo til frá upphafi og í raun gert hana mögulega.“

Andrúmsloftið í kringum jólin 

Heimsókn í Jólagarðinn þarf ekki að vera tímasettur viðburður þar sem upplifunin er öll í höndum gestanna sjálfra. Jólagarðurinn er umgjörðin og öllum er velkomið að njóta staðarins með sínum hætti. Í Jólagarðinum er þannig kappkostað að hafa á boðstólum einhvern vísi að jólum fyrir alla.

Það sem gerir andrúmsloftið einstakt í aðdraganda jólanna eru í rauninni heimsóknir alls þessa ólíka fólks sem drífur að úr öllum áttum. Svolítið eins og allir hafi ákveðið að koma í heimsókn einmitt núna og vera síðan svo heppnir að hitta vini og ættingja og njóta ævintýrisins saman.“

Aðspurð segja eigendur framtíðina vera bjarta. „Þetta er skemmtilegur starfsvettvangur og gefandi. Meðan það er gaman verður Jólagarðurinn á sínum stað, þannig að markmiðið „Jól í 100 ár“ er enn í fullu gildi.“

Að lokum senda eigendur Jólagarðsins jólakveðju til lesenda Kaffið.is:

„Við viljum bara nefna að jól geta verið allskonar og þó hefðir séu dásamlegar og að sjálfsögðu samofnar hátíð okkar flestra, getur bara örlítil breyting opnað nýja og skemmtilega glugga og hleypt inn fólki og fögnuði sem við hefðum annars misst af.“

Jólagarðurinn er staðsettur í Hrafnagilshverfi, í um tíu mínútna keyrslu frá Akureyri. Í desember er opnunartíminn rýmri og þá er opið til klukkan 21.00 á kvöldin.

COMMENTS