Handknattleiksdeild KA átti góðan dag í gær þegar liðið tryggði sér sæti í undanúrslitum Powerade-bikarsins með sigri á Fram, auk þess sem félagið tilkynnti um komu landsliðsmarkvarðarins Ágústar Elí Björgvinssonar.
KA vann ríkjandi bikarmeistara Fram með 30 mörkum gegn 25 í 8-liða úrslitum í KA-heimilinu. Leikurinn var jafn framan af og staðan 14:13 í hálfleik. Í síðari hálfleik náði KA góðum kafla þar sem liðið skoraði sjö mörk gegn einu, sem lagði grunninn að sigrinum. Morten Linder var markahæstur KA-manna með 7 mörk og Bruno Bernat varði 12 skot í markinu. Undanúrslit keppninnar fara fram 26. febrúar.
Eftir leikinn tilkynnti KA að samið hefði verið við Ágúst Elí Björgvinsson til eins og hálfs árs. Ágúst rifti nýverið samningi sínum við danska liðið Ribe-Esbjerg. Hann á að baki farsælan atvinnumannaferil með liðum á borð við Sävehof, KIF Kolding og Álaborg, auk þess að hafa leikið með íslenska landsliðinu á stórmótum.


COMMENTS