Í einni af elstu byggingum Akureyrar er kaffihúsið Kaffi Ilmur til húsa. Byggingin er ein af tveimur sem hafa nokkurn tíma verið reistar í svokölluðu Skátagili, en hitt húsið var rifið á sínum tíma og Kaffi Ilmur stendur því eitt í gilinu. Húsið er meðal fyrstu steinsteyptu húsanna sem reist voru á Akureyri; fyrst sem gripahús en í framhaldinu byggði Ingimar Jónsson, söðlasmiður og bólstrari, sér og fjölskyldu sinni upp heimili á grunnum gripahússins.
Árið 2012 var húsið gert upp, en þá hafði það verið í eigu einnar og sömu fjölskyldunnar síðan það var byggt í byrjun 20. aldar, og þá var Kaffi Ilmur fyrst stofnað. Gula húsið í Skátagili hefur allar götur síðan sett svip sinn á miðbæinn.
Kaffihús knúið áfram af konum
Annemieke Presburg tók við rekstri kaffihússins í framhaldi af því að húsið í Skátagilinu var sett á sölu árið 2022. Hún er frá Hollandi en hefur lengi verið viðloðandi Akureyri, alveg síðan árið 2001 þegar hún fluttist hingað fyrst. Kaffi Ilmur er þannig alfarið rekið af konum, með góðri aðstoð frá öðrum, og aðal driffjaðrirnar eru Annemieke eigandi staðarins og Alina, sem fluttist hingað frá Úkraínu árið 2022.
Kaffi Ilmur er í dag nokkurs konar fjölskyldufyrirtæki og hafa börn Annemieke, Ýr Aimée, Nói, Máni og Nanna Líf verið starfsmenn á kaffihúsinu frá upphafi. Eiginmaður hennar, Gauti Þór, hefur einnig sést í uppvaskinu á góðum dögum þegar hann þarfnast hvíldar frá hinu starfinu sínu.
Notalegt umhverfi í gömlu húsi
Kaffi Ilmur hefur alla tíð lagt mikið upp úr að bjóða gestum og gangandi upp á huggulega stemningu og er þekkt fyrir hina heilögu tvennu; kökusneið og kaffi. Rjómatertur, Magnúsarsælan og kanilkakan eru sérstaklega vinsælar. Síðustu ár hefur staðurinn einnig getið sér gott orð fyrir morgun- og hádegismatinn, „þá sérstaklega hjá ferðamönnum sem vilja upplifa sér-íslenska stemningu í gömlu húsi.“
Megin áherslan er að bjóða upp á góðan mat á góðu verði, sem hefur sannarlega skilað sér í ánægðum gestum og staðurinn hefur verið efstur á lista ferðamanna á Tripadvisor þrjú ár í röð.
Jólin á Kaffi Ilm
Um jólin sækja gestirnir meira í kakó (stundum með smá dreitil út í til að hlýja líkama og sál í norðlenskri kuldatíð), jólaglögg og aðra jólalega drykki. Starfsfólkið gætir þess að andrúmsloftið sé afslappað og huggulegt, til dæmis með því að passa upp á að það séu ávallt réttu tónarnir sem blandast jólailminum sem leggur um allt húsið:
„Jólatónlist er fín, en maður getur líka fengið nóg af henni. Á þessum árstíma spilum við gamla íslenska jólatónlist í bland við nýja, en reynum að hafa ekki bara jólalög.“
Í desember er opið frá klukkan 11.00 til 16.00 alla daga nema mánudaga og fjölbreyttur matseðill í boði. „Staðurinn hefur ekki verið með sérstakan jólamatseðil en í hverri viku eru vikutilboð á réttum sem ekki eru vanalega á matseðli.“ Á Þorláksmessu er boðið upp á kæsta skötu klukkan 13.00 og það hefur verið vinsælt. Fólki er bent á að panta borð í síma 6805851 þar sem staðurinn er lítill og takmarkaður fjöldi sem kemst að.
Einhver jólaskilaboð frá Kaffi Ilm?
„Sleppið jólastressinu og reynið að njóta þess að hitta gamla vini og nýja. Til dæmis er hægt að mæla sér mót í kaffi og köku á Kaffi Ilm og horfa yfir miðbæinn á þá sem náðu ekki að flýja jólastressið.“


COMMENTS