Nýlega gaf Kristrún Jóhannesdóttir út sitt fyrsta lag, caught in the middle, undir listamannsnafninu kris. Lagið er af væntanlegri smáskífu sem ber titilinn what’s past.
Kristrún er 27 ára og átthagar hennar eru Eyjafjarðarsveit, fjörðurinn og fjöllin, en hún hefur komið víða við síðustu ár.
„Ég lauk námi í söngleikjalist í AMDA New York 2022, söng með hljómsveitinni minni Fused á Broadway 2023-2024, vann á bak við tjöldin í Hudson-leikhúsinu á Broadway þ.á.m. með Daniel Radcliffe í sýningunni Merrily We Roll Along og Jessicu Chastain í sýningunni a Doll’s House. Ég hef samið fjölda texta fyrir aðra tónlistarmenn, en var meðal annars textahöfundur og meðhöfundur lagsins Norðurljós sem flutt var af söngkonunni Biu í Söngvakeppni sjónvarpsins í ár. Ásamt því hef ég unnið on and off í Spúútnik síðan 2018.“
Kristrún segir frá að síðastliðið ár hafi hún unnið alla sína tónlist með Jóhannesi Ágústi, pródúser og lagahöfundi, sem er einnig frá Akureyri og telur hún sig afar heppna með listrænan félaga. Samstarfið hafi gengið einstaklega vel hjá tvíeykinu að mati Kristrúnar, þar sem hún sjálf er textamiðaður lagahöfundur en sérsvið Jóhannesar er að skapa laglínurnar. Ólíkir styrkleikar sem mynda óvænta samhljóma heild.
„Lagið sjálft, caught in the middle, fjallar um að vera í sambandi sem gæti aldrei gengið upp, þrátt fyrir að manneskjurnar deili neista.“
Aðspurð segir Kristrún listsköpun sína einkennast af einlægri hugleiðingu um ástina og hversdagsleikann. Tónheimur þar sem nostalgía og sumarlegur blær ráða ríkjum.
„Þegar kemur að því að búa til tónlist reyni ég bara að fylgja innsæinu og ekki ofhugsa. Ég gæti rýnt endalaust í lögin mín við að reyna að gera þau fullkomin en þá kæmi aldrei neitt út. Frekar sætti ég mig við hvar ég er þann daginn og bara einbeiti mér að því að skapa.“
Væntanleg smáskífa Kristrúnar kemur út á næstu misserum og þar sækir hún innblástur í gamlar dagbækur og nótnabækur sem hún hefur varðveitt frá ungdómsárunum. Segja má að dagbókarfærslur úr fortíðinni eigi síðan í ákveðnu samtali við titil smáskífunnar what’s past, sem er tilvísun í what’s past is prologue eða það sem er liðið er formáli, sem er eftirlætis tilvísun Kristrúnar í Shakespeare.
„Þar sem platan dílar við mál fortíðar minnar má í raun líta á hana sem minn formála.“
Kristrún flytur plötuna í heild sinni í Tónabíó í Reykjavík 13. september næstkomandi.


COMMENTS