Myndband: Tillögur að uppbyggingu á Austurbrú og Hafnarstræti

Myndband: Tillögur að uppbyggingu á Austurbrú og Hafnarstræti

Skipulagsráð Akureyrarbæjar hefur samþykkt að hefja vinnu við að breyta deiliskipulagi á svæði sem nær til lóðanna Austurbrúar 10-12 og Hafnarstrætis 80 og 82 í samræmi við tillögur þróunaraðila að uppbyggingu. Þetta kemur fram á vef bæjarins.

Í desember sl. samþykkti ráðið að úthluta þessum spennandi lóðum í miðbæ Akureyrar til Luxor ehf., en þó með fyrirvara um að lagðar yrðu fram nákvæmari hugmyndir um uppbyggingu. Þær hafa nú litið dagsins ljós og voru kynntar á fundi skipulagsráðs í gær. Í auglýsingu bæjarins var talað um lóðir „á besta stað í miðbæ Akureyrar.“

Á vef Akureyrar segir:

Tillögurnar ganga í meginatriðum út á blandaða byggð með íbúðum af mismunandi stærðum og gerðum og verslunar- eða veitingastarfsemi. Gert er ráð fyrir að nýbyggingar myndi tvo kjarna í kringum opin sameiginleg garðsvæði með gönguleiðum, torgum og leiksvæðum.

Markmið þróunaraðila er að reiturinn verði til þess að styrkja stöðu miðbæjarins sem þungamiðju menningar, verslunar og þjónustu. Lögð er áhersla á að yfirbragð nýbygginga falli vel að núverandi byggð og bæjarmynd.

N4 hefur birt myndbandið sem kynnt var fyrir bæjaryfirvöldum en hægt er að horfa á það hérna fyrir neðan:

UMMÆLI