Fyrr í mánuðinum var nýtt umhverfislistaverk formlega afhjúpað á Gömlu bryggju á Grenivík. Fjallað er um verkið á www.grenivik.is
Listaverkið Sókn er eftir Sigríði Björgu Haraldsdóttur og vísar beint í sögu Grenivíkur, á sama tíma og það sækir fagurfræðilegan innblástur í grenvíska bátinn Hermann TH 34. Sókn var reist til heiðurs sjómönnum og sjósókn frá Grenivík í aldanna rás, en um leið stendur það sem minnisvarði um sókn bæjarins til framtíðar. Slippurinn á Akureyri sá um að smíða verkið.
Hermann TH 34 gekk í endurnýjun lífdaga árið 2021 þegar öld var frá því að báturinn var smíðaður og í framhaldinu var Hermannsbúð byggð sem varðveislustaður fyrir bátinn. Með uppsetningu listaverksins er stórum áfanga náð í endurbótum á safna- og bryggjusvæðinu á Grenivík, sem hefur verið í uppbyggingu allt frá því að Útgerðarminjasafnið var opnað árið 2008.
Listaverkið var reist með fjárhagslegum stuðningi í formi styrkja frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, Hafnasamlagi Norðurlands, Styrktarsjóði EBÍ og sveitarfélaginu sjálfu. Auk þess var verkefnið fjármagnað af útgerðarfélögunum Gjögur hf., Frosti ehf. og Sænes ehf. Starfsfólk sveitarfélagsins sá um uppsetningu á listaverkinu.
Listamanninum, styrktaraðilum, sem og öðrum sem að komu að listaverkinu, eru færðar þakkir fyrir vel unnin störf í þágu menningar og sögu Grenivíkur.


COMMENTS