Örlög meirihlutans á Akureyri gætu ráðist af L-listanumMynd/HA

Örlög meirihlutans á Akureyri gætu ráðist af L-listanum

Breytinga er að vænta í bæjarpólitíkinni á Akureyri í vor, að mati Grétars Þórs Eyþórssonar, stjórnmálafræðings og prófessors við Háskólann á Akureyri. Rúv greindi frá málinu og ræddi við Grétar um stöðuna.

Grétar telur að framtíð núverandi meirihluta (Sjálfstæðisflokks, L-lista og Miðflokks) velti miklu leyti á því hvernig L-listanum tekst að manna sinn lista, nú þegar ljóst er að oddvitinn Halla Björk Reynisdóttir gefur ekki kost á sér áfram. Grétar segir Höllu hafa verið „hjartað og lungun“ í listanum og brotthvarf hennar skapi óvissu. Hinir oddvitar meirihlutans, Heimir Örn Árnason og Hlynur Jóhannsson, hyggjast sitja áfram.

Í minnihlutanum verða einnig mannabreytingar þar sem Samfylkingin þarf nýjan leiðtoga, oddvitar Framsóknar og VG stefna á áframhaldandi setu. Tvö ný framboð hafa einnig verið boðuð, Sjómannaframboð og Nýtt upphaf, auk þess sem Grétar telur líklegt að Viðreisn verði með framboð.

Þá telur Grétar ólíklegt að staða Heimis Arnar sem sakbornings í máli vegna hoppukastalaslyssins 2021 muni hafa úrslitaáhrif í kosningunum, þar sem hann hafi verið þar á vettvangi íþróttafélags en ekki sem stjórnmálamaður.

COMMENTS