Ritlistakeppni Ungskálda 2025

Ritlistakeppni Ungskálda 2025

Ritlistakeppni Ungskálda er fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára á Norðurlandi eystra. Vegleg peningaverðlaun eru í boði fyrir þrjú efstu sætin og er lokaskiladagur verka 30. október.

Engar hömlur eru settar á hvers konar textum er skilað inn, hvorki varðandi efnistök né lengd. Einu skilyrðin eru að textarnir séu á íslensku og frumsamið hugverk höfundar. Allar nánari upplýsingar og hlekk á umsóknargátt er að finna á ungskald.is.

Ungskáld er verkefni á Akureyri sem miðar að því að efla ritlist og skapandi hugsun hjá ungu fólki. Verkefnið, sem hófst árið 2013, er það eina sinnar tegundar á landinu. Auk keppninnar er boðið upp á námskeið í skapandi skrifum með leiðbeinendum úr ólíkum áttum, einnig hafa verið haldin vinsæl ritlistarkvöld með upplestri og tónlistaratriðum.

Í nefnd Ungskálda eru fulltrúar frá Atvinnu-, markaðs- og menningarteymi Akureyrarbæjar, Verkmenntaskólanum á Akureyri, Menntaskólanum á Akureyri, Ungmennahúsinu í Rósenborg og Amtbókasafninu.

COMMENTS