Scoutt gefur út nýtt lag tengt við Eina með öllu

Scoutt gefur út nýtt lag tengt við Eina með öllu

Akureyringurinn og hlaðvarpstjórnandinn Ásgeir Ólafsson Lie gaf út nýtt lag nú á dögunum en hann tengir það við hátíðina Eina með öllu. Ásgeir er nú fluttur til Noregs og hefur verið að dunda sér við að gera tónlist undir hliðarsjálfinu Scoutt en að eigin sögn hefði hann alltaf átt að verða tónlistarmaður en sá draumur rættist ekki fyrr en um fimmtugt.  

„Scoutt er sá sem sest í stúdíóið heima, leggst yfir einhver bít og sýður saman tónlist.  Ásgeir er hins vegar pabbinn sem sýður pasta handa börnunum sínum. Þessum tveim tekst að sjóða heimili saman – Scoutt og Ásgeir,“ segir Ásgeir.

Ásgeir segist ekkert vera koma mörgum á óvart því tónlist hafi verið stór hluti af lífi hans, þó segist hann kannski koma konu sinni mest á óvart sem samt þekkir hann langbest.

Tónlistin sem hann er að gera er allt frá rólegri þjóðlagatónlist yfir í 3AM klúbbatónlist, eins og Ásgeir kallar hana, „Allt sem er melódískt virkar. Engin sérstök form, allt sett saman í alls konar. Allt leyfilegt sem er skemmtilegt,“ segir Ásgeir

Nú er Ásgeir er með tvær plötur í vinnslu, önnur þeirra er 10 laga ábreiða eftir hans uppáhalds íslenska tónlistarmann, Ívar Bjarklind. Þar setur hann sín 10 uppáhaldslög eftir Ívar í nýjan búning. Hin platan er persónulegri og með frumsömdu efni, sú plata kemur út með haustinu.

Hvað varðar nafnið Scoutt þá segir Ásgeir nafnið hafa komið til sín fyrir löngu síðan: „Veit ekki af hverju, hef ekki hugmynd í raun, en það var í ekkert annað nafn í boði þegar ég startaði þessu.“ 

Þegar kemur að laginu segir Ásgeir: „Ég lék mér að því að vinir fara í partý einhvers staðar á AK-City, í þessu tilfelli á Einni með öllu, og láta drauma sína rætast, þannig séð. Þetta er ekki „Ein með öllu lagið“, ég er bara svo mikill Akureyringur í mér að ég tengdi þetta bara við partýið sem er þar árlega en það má vel gera það að laginu mín vegna, spurðu Dabba bara fyrst.“

„Textinn er leikur að smá dónaskap en ekkert hættulegur þó ég hafi sett E við lagið. Þetta er bara aggressíft old school hip hop. Það eru tveir norskir og djarfir félagar sem rappa þetta fyrir mig á íslensku og gera það vel þar sem enginn íslendingur þorði að stökkva á þetta sem ég talaði við,“ segir Ásgeir að lokum.

Lagið má finna á Spotify hér fyrir neðan.

COMMENTS