Pílustaðurinn Skor opnaði síðastliðið haust á Glerártorgi og hefur vakið mikla lukku, bæði hjá heimamönnum sem og aðkomufólki. Á staðnum er boðið upp á átta aðskilda pílubása með fjölbreyttu leikjaúrvali og hver bás rúmar tvo til tólf einstaklinga, þannig Skor hentar vel fyrir samkomu hópa af öllum stærðum.
Viðmælandi Kaffið.is á Skor lýsti sérstöðu pílustaðarins: „Það sem gerir píluna sérstaklega skemmtilega er fyrst og fremst samveran, þetta er frábær leið til að hittast og njóta stundarinnar með vinum sínum.“
Auk pílunnar býður Skor upp á vel einangrað karaoke herbergi og mathöllin Iðunn er í næsta nágrenni við staðinn. Gestum er frjálst að koma með veitingar þaðan inn á Skor til að njóta milli kasta.
„Viðtökurnar hafa verið alveg frábærar,“ segir Bjarki Már, rekstrarstjóri Skor á Glerártorgi. „Fólk minnist sífellt á að það hafi einmitt vantað stað á Akureyri sem býður upp á pílu með fjölbreyttum leikjum, frekar en þessa hefðbundnu keppnispílu.“
Skor leggur áherslu á að skapa létta og góða partýstemningu fyrir hópa af öllum stærðum og gerðum. „Staðurinn er hannaður þannig að litlir vinahópar sem og hundrað manna fyrirtæki geta notið sín hér. Við bjóðum líka upp á hópatilboð sem gera staðinn að hagkvæmum kosti fyrir hópefli og aðrar skemmtanir,“ bætir Bjarki við.
Aðspurður segir hann að áskorunin sem fylgir því að reka bar sem er staðsettur utan við miðbæinn hafi verið lærdómsrík og skemmtileg. „Við höfum lagt mikla áherslu á að kynna staðinn vel og minna á hversu rúmgóður og vel staðsettur hann er, þrátt fyrir að hann sé ekki miðsvæðis“ segir hann. Skor á Akureyri má finna á Instagram og þar eru birtar tilkynningar um sérstök tilboð, nýja píluleiki og áður óséða kokteila sem von er á fljótlega.
Að lokum er Bjarki spurður hvaða drykkur sé bestur með pílunni og hann svara um hæl: „Peróní á dælu er hinn fullkomni partner fyrir píluna.“


COMMENTS