Sveitarfélagið Norðurþing og bresk-norska félagið GIGA-42 Ltd. hafa undirritað viljayfirlýsingu um uppbyggingu gagnavers fyrir gervigreind á iðnaðarsvæðinu á Bakka. Fyrsti áfangi gerir ráð fyrir 50 MW veri á 4,3 hektara lóð. Forsenda verkefnisins er að GIGA-42 semji við Landsvirkjun um afhendingu á rafmagni.
Stefnt er að því að framkvæmdir hefjist á fyrri hluta 2026. Áætlað er að um 100 manns starfi við byggingu og hönnun og við fullan rekstur fyrsta áfanga er gert ráð fyrir 50 til 80 varanlegum störfum á ýmsum tæknisviðum.
Í viljayfirlýsingunni kemur fram að staðsetningin á Bakka sé einstaklega hagkvæm vegna nálægðar við orku, auk þess sem hægt verði að nýta afgangsvarma frá gagnaverinu í aðra starfsemi á svæðinu, svo sem fiskeldi eða gróðurhúsarækt. Verkefnið býður upp á stækkunarmöguleika ef hægt er að semja um frekari orku í framtíðinni.


COMMENTS