Þjálfun viðbragðsaðila í GrímseyMynd/Anna María Sigvaldadóttir

Þjálfun viðbragðsaðila í Grímsey

Um síðustu helgi var haldið vettvangsliðanámskeið í Grímsey á vegum Sjúkraflutningaskólans að beiðni Heilbrigðisstofnunar Norðurlands. Átta manns luku námskeiðinu en markmið þess er að viðbragðsaðilar í eyjunni hafi kunnáttu til að bregðast við óvæntum aðstæðum, svo sem slysum eða alvarlegum veikindum. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar og að sögn Guðmundar Smára Gunnarssonar, sem hélt námskeiðið ásamt Árna Friðrikssyni hjá Slökkviliði Akureyrar, voru þátttakendur mjög áhugasamir og luku þeim verkefnum sem fyrir þá voru lögð með sóma.

Slökkvilið Akureyrar mun sjá um endurmenntunaræfingar fyrir hópinn og þann búnað sem þarf að vera til staðar í Grímsey. Í Grímsey er sjúkrabíll á slökkvistöð eyjarinnar og allur sá búnaðar sem vettvangsliðar hafa fengið þjálfun í að nota.

COMMENTS