Trilludagar á Siglufirði tókust einstaklega velMynd/Fjallabyggð

Trilludagar á Siglufirði tókust einstaklega vel

Trilludagar voru haldnir á Siglufirði í áttunda sinn laugardaginn 26. júlí og tókust þeir einstaklega vel. Góð stemning var á bryggjunni og um borð í bátunum allan daginn.11 trillukarlar og aðstoðarfólk þeirra sem sáu um siglingarnar. 500 gestir fóru á sjó og tók hver sigling um 40 mínútur.

„Biðröðin í bátana hélst þétt yfir daginn og voru gestir hátíðarinnar allir sammála um að upplifunin af siglingunni hefði verið biðarinnar virði enda bros á hverju andliti þegar í land var komið. Sjóstangir voru um borð í trillunum og komu allir bátar með fisk á grillið,“ segir á vef Fjallabyggðar.

Félagar úr Kiwanisklúbbnum Skildi sáu um veitingarnar og afgreiddu um 2000 diska af fiski og meðlæti. Tónlistaratriði voru spiluðu á bryggjunni og lauk deginum með síldarsöltun og bryggjuballi við Síldarminjasafnið. Fjölmargir sjálfboðaliðar, félagasamtök og fyrirtæki komu að hátíðinni, þar á meðal Björgunarsveitin Strákar sem annaðist öryggisgæslu á sjó.

COMMENTS