Íslenska heilsuappið LifeTrack hefur náð þeim áfanga að hýsa nú gagnagrunn með 20.000 matvörum. Appið, sem gefið er út af ITS Macros ehf., var stofnað árið 2020 af Inga Torfa Sverrissyni og Lindu Rakel Jónsdóttur með það að markmiði að auðvelda Íslendingum að halda utan um næringu og lífsstíl.
„Þegar þróun LifeTrack hófst hefði verið draumastaða að geta tengst heildstæðum gagnagrunni yfir allar matvörur sem seldar eru í íslenskum verslunum. Fljótlega kom þó í ljós að slíkur gagnagrunnur var einfaldlega ekki til. Í stað þess að láta það stoppa sig ákváðu stofnendur LifeTrack að bretta upp ermar. Strikamerki voru skönnuð í Bónus, gang fyrir gang og síðar í Krónunni, hillu fyrir hillu. Fljótlega varð þetta skemmtilegt fjölskylduátak þar sem öll lögðu sitt af mörkum,“ segir í færslu Lifetrack á Facebook.
Þegar appið fór fyrst í loftið voru um 7.000 strikamerki skráð en með virkri þátttöku notenda hefur fjöldinn nú nær þrefaldast og heldur áfram að aukast dag frá degi.
Hér er hægt er að horfa á myndbandsviðtal Gonzo við stofnendur LifeTrack á vef Kaffisins.


COMMENTS