Veganestið er greinaflokkur í boði Góðvina HA þar sem rætt er við brautskráða HA-inga
Skellti sér á skak fyrir sjávarútvegsfræðina
„Ég er alin upp í Breiðholtinu og vestur á fjörðum. Í dag bý ég á Vatnsendanum í Kópavogi með manninum mínum og tveimur táningsdætrum. Ég er stjórnandi á fyrirtækjasviði hjá Arion banka þar sem ég hef starfað í 10 ár í mörgum störfum, öllum innan fyrirtækjasviðs,“ segir Helga Sigurrós og útskýrir svo hvernig hún kom sér í endanlegt nám eftir nokkrar hjáleiðir.
„Ég byrjaði í Menntaskólanum við Sund þar sem bekkjarkerfið reyndist aðeins of skemmtilegt fyrir mig svo ég skipti í Fjölbraut í Breiðholti. Þaðan útskrifaðist ég af uppeldisfræðibraut með það markmið að verða iðjuþjálfi. Eftir eitt og hálft ár í námspásu hóf ég af einhvers konar tilviljun nám í iðnrekstrarfræði í Tækniháskólanum. Þetta nám var áður útgerðartækni og eftir rúmt ár þarna fór ég að velta fyrir mér hvort slíkt nám væri kennt á Íslandi. Ég hafði aðeins horft til HA áður þegar ég var með augun á iðjuþjálfuninni svo það var ekki alveg ný hugsun að fara norður. Ég ákvað svo eftir eitt og hálft ár í Tækniháskólanum að skipta yfir í HA og það gekk vel að fá námið metið. Ég tók svo seinna meistarapróf í alþjóðaviðskiptum í Grenoble Graduate School of Business.“
Helga Sigurrós segir frá því að hún hafi nú ekki verið alveg ókunnug þessari grunnatvinnugrein. „Á þessum tíma var enn skilyrði að hafa verið á sjó eða í sjávarútvegstengdu starfi til að komast inn, þannig að ég skellti mér á skak sumarið áður til að tikka við það í inntökuskilyrðunum.“ Hún segir það hafa verið ógleymanlega lífsreynslu og hafi í gegnum tíðina vakið skemmtilegar umræður um ferilskrána.
„Svo er pabbi skipstjóri og ég hafði saltað hrogn heima í sveitinni okkar. Ég var mjög meðvituð um að innan geirans væru góðir starfs- og tekjumöguleikar en það var umtalað að sjávarútvegsfræðingar bæði frá HA og Tromsö væru gott starfsfólk.“
„Ekkert eðlilega skemmtilegur tími“
Helga Sigurrós segir að valið á HA hafi verið mikið gæfuspor og hún hafi þurft á því að halda að skipta aðeins um umhverfi. „Mér hefur aldrei þótt neitt vandamál að vinna út um allt land og setja mig inn í venjur og pælingar eftir landsvæðum. Ég tel það styrkleika og ég tengi það við að hafa rifið mig upp í námi og leyft þessu svolítið að flæða.“
„Þetta var svo ekkert eðlilega skemmtilegur tími á vistinni og ég kynntist mörgum. Fjarnámið er aðeins að byrja þarna en við vorum enn mörg á staðnum í tímum og mikil stemmning í hópnum. Ég hefði hreinskilningslega ekki viljað missa af því,“ segir Helga Sigurrós og bætir við að einnig hafi þetta verið áhugavert þar sem fólk í náminu var á öllum aldri: „Menn á miðjum aldri fluttu norður með fjölskyldurnar sínar til að sinna náminu og aðrir voru nýstúdentar. Ég fæ svo alltaf hlýtt í hjartað þegar ég hitti eða hugsa til Rannveigar Björnsdóttur sem kenndi okkur töluvert af námskeiðum fyrir Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins. Á þessum tíma var sjávarútvegsdeildin í sama húsi og sú stofnun við Glerárgötu. Þessi nálægð og frjálsræði á milli rannsóknarstofnunarinnar og okkar var skemmtileg. Núna þegar ég hugsa til háskólans þá detta mér einmitt í hug orðin Glerárgata, þverfaglegt og Stafnbúi.“
Eina konan í útskriftarárganginum
„Sjávarútvegsfræðin er stórkostlega þverþvagleg og opnaði mjög huga minn fyrir því að ég þyrfti ekki að verða eitthvað eitt. Ég lærði að það væru ýmsir möguleikar opnir sem ég hef nýtt mér vel á mínum starfsferli,“ segir Helga Sigurrós sem eftir útskrift fór að vinna hjá Fiskistofu sem þá var í Reykjavík. Hún segir frá því að strákunum sem hún útskrifaðist með leist ekki vel á að hún færi að vinna hjá ríkinu.
„Við vorum fá í deildinni þessi ár sem ég var, og í mínum árgangi brautskráðumst við 6 eða 7 og ég var eina stelpan. Strákarnir ætluðu ekki að verða eldri með að ég færi að vinna hjá ríkinu og fannst ég gera lítið úr náminu með því. Ég hafði unnið á Fiskistofu í sumarstörfum, lært mikið og kunni vel við mig. Ég vann svo hjá Fiskistofu í tíu ár í mörgum ólíkum störfum, með barnseignarleyfum og námsleyfi. “
„Ég vann töluvert með atvinnuveganefnd þingsins á þessum tíma. Það þróaðist í að ég var lánuð í sjávarútvegsráðuneytið í sérverkefni á umbótatímum í kjölfar bankahrunsins og öllum kerfum átti að breyta. Eftir seinna barnseignarleyfið mitt réði Sigurður Ingi Jóhannsson mig sem aðstoðarmann sinn en þá var hann sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Það var frábær tími og stórkostlegt að vinna með Inga en mér var nokkuð ljóst að pólitík yrði ekki minn starfsvettvangur. Ég er samt óendanlega þakklát fyrir tækifærið að starfa sem faglegur aðstoðarmaður. Ég var einmitt aðstoðarmaður sjávarútvegsráðherra þegar ákvörðun um að flytja Fiskistofu til Akureyrar er tekin, svona fara hlutirnir í hringi og tengjast.“ Segir Helga Sigurrós frá.
„Ég ræðst svo þaðan inn í sjávarútvegsteymi Arion banka þar sem ég hef vaxið og dafnað í ýmsum störfum og verkefnum í bankanum. Eins hef ég sinnt stjórnarstörfum meðal annars hjá Matís, HK, Þjóðarhöllinni, Hringborði hafs og fiskeldis og sit í dag í stjórn Eskju,“ útskýrir Helga Sigurrós aðspurð um stöðu í dag og vert er að nefna að hún er ein þeirra sem hafa tekið virkan þátt í verkefni Arion Banka.
Takið þátt í vísindaferðunum
Helga Sigurrós rifjar upp skemmtilega sögu frá háskólaárunum þar sem mikið var af verklegum tímum sem öllum þurfti að gera skil í skýrsluformi. „Stundum varð álagið aðeins of mikið og helgunum kannski varið í eitthvað fleira en að læra. Þá var gott að við vorum með öflugar skýrslumöppur frá fyrri nemendum sem stundum var leitað í. Það var aðeins vandræðalegt þegar eðlisfræðikennarinn minn kallaði mig inn til að fara yfir eina skýrsluna og hrósaði mér dulúðlegur fyrir hversu vel unnin hún væri. Hann nefndi sérstaklega þann hluta sem ég hafði gert skilmerkilega skil en hafði ekki verið unninn í tilrauninni hjá okkar hópi, þó að hann hefði jú vissulega verið framkvæmdur árið áður. En maður lærir líka af svona mistökum!“
Við spurðum Helgu Sigurrósu hvort hún ætti heilræði til þeirra sem eru að íhuga framhaldsnám í sjávarútvegsfræði og ekki stóð á svörum. „Hafið gaman af þessu og reynið að finna sumarstörf innan fagsins til að máta ykkur við. Sérstaklega áður en valárið hefst, þá er hægt að velja nálægt áhugasviði og takið þátt í vísindaferðunum. Toppurinn hjá okkur var einmitt legendary ferð til Danmerkur sem öll deildin fór í saman.“
Hún segir að einnig sé skelfilega erfitt að skrifa lokaverkefnið og mælir þá með því að reyna að gera hagnýtt verkefni með fyrirtæki: „Það nýttist nær öllum mínum hópi vel. Látið svo taka svolítið eftir ykkur og vonandi er ennþá mikið af kennurum úr atvinnulífinu, það nýttist okkur vel. Og munið að halda uppi heiðri Stafnbúa!“


COMMENTS