Þetta er sagan mín – Hver er þín saga?

Mín saga; árið er 1967, ungir foreldrar eignast sitt fyrsta barn 18 og 19 ára. Mamma, Halldóra Helgadóttir alin upp í Rauðamýri og pabbi, Reynir Adólfsson úr Eyrarvegi, fluttu með frumburðinn í kjallara á Sniðgötu 3. Tíminn leið og við bættust fleiri börn og þegar ég var orðin 5 ára fluttu foreldrar mínir með mig og systkinin til Ísafjarðar. Ég kláraði grunnskólann á Ísafirði, vann í fiski á sumrin frá tæplega 13 ára aldri og eignaðist ómetanlega vini. Ákvað síðan 16 ára að ég skyldi fara norður í MA og kynnast einhverju nýju. Í huga mínum var það að fara norður svona aðeins eins og að fara til útlanda, alltaf gott veður og allskonar flottheit eins og rúllustigi í Vöruhúsi KEA og nammibar í Amaro. Ég bjó hjá Jónu ömmu í Skarðshlíðinni, þar sem að Alli afi var nýlátinn.

Ég tók menntakólann svona kannski eins og margir, lítið lært en þeim mun meira reynt að kynna sér akureyrskt skemmtanalíf og H100 og Sjallinn voru þar ofarlega á blaði. Í þriðja bekk ákvað ég að skella mér í einkaflugnám sem ég kláraði síðan samhliða stúdentinum. Eftir stúdentinn lá leiðin suður í atvinnuflugsnám og ekki löngu eftir að því lauk var fyrsta barn, lítil stúlka á leiðinni. Þegar þarna er komið sögu tók við almennt basl og peningaleysi, við fluttum mikið og oft á milli landshluta og reyndum að láta enda ná saman. Þegar stúlkan var orðin þriggja ára vorum við aftur komin vestur á Ísafjörð.

Árið er 1994, við Preben giftum okkur í maí það ár og annað barn væntalegt í desember. Þegar líður á veturinn ákveðum við hjónin að flytja aftur norður þar sem að Preben hafði fengið vinnu í Strýtu á Akureyri og hætti sem verkstjóri í rækjuvinnslunni á Súðavík. Við flytjum í nóvember og ekki löngu síðar fellur snjóflóð á Súðavík, með þeim skelfilegu afleiðingum sem við öll þekkjum. Við eignumst síðan aðra dóttur og fannst við endalaust vera að basla, svo ég ákveð að skella mér aftur í nám og í þetta sinn varð flugumferðastjóranám fyrir valinu.

Ég flaug á milli Akureyrar og Reykjavíkur meðan á námi stóð, en Preben sá um heimilið. Til að gera langa sögu stutta höfum við verið á Akureyri síðan, eignast eina dóttur í viðbót og finnst hvergi betra að vera. Hér er gott að ala upp börn og allt til alls.

Árið 2006 var mér fyrst boðið að taka sæti á lista L-listans sem ég þáði, ég hafði alltaf haft brennandi áhuga á samfélaginu og alist upp við mikla pólitíska umræðu, þar sem að pabbi hafði tekið þátt í bæjarmálum á Ísafirði og mamma, afar og ömmur öll tilbúin að ræða þjóðfélagsmál við mann frá því að ég var krakki. Eftir kosningar 2006 fékk ég tækifæri á að sitja í stjórn Akureyrarstofu í minnihluta. Á þessum tíma fannst mér mig vanta betri þekkingu á rekstri og hellti mér því í viðskiptafræðinám í HA sem ég kláraði meðfram vinnu. Eftir efnahagshrunið 2008 fannst mér ég vera tilbúin að láta gott af mér leiða og þá sérstaklega fyrir ungar fjölskyldur og fólk sem þarf góðan stuðning frá samfélaginu. Úr varð að ég tók annað sæti á L-listanum og árið 2010 fengum við hreinan meirihluta.

Kosningakvöldið þegar úrslit voru ljós var ekki laust við að það læddist að manni örlítill kvíði. En það var ekki mikill tími til þess að velta sér upp úr hlutunum og næstu fjögur árin einkenndust af mikilli vinnu, flóknum verkefnum til að leysa og gleði yfir þeirri vissu að við höfðum lagt okkur öll fram við að gera eins vel og við gátum. Árið 2014 fannst mér að kominn væri tími á að huga betur að fjölskldunni og dætrum og ákvað að ég skyldi ekki bjóða fram krafta mín í það skipti. Það hefur hins vegar ekki látið mig í friði að ég gæti nýtt þessa reynslu og þekkingu í að gera enn betur fyrir bæinn minn. Það er ástæða þess að ég býð mig nú fram kæri kjósandi, ég er tilbúin að vinna að heilindum með þinn hag fyrir brjósti og hef trú á að við getum saman gert þennan bæ okkar framúrskarandi! Hér er best að búa!

UMMÆLI

Sambíó