Barnaverndarstofa leitar að fósturforeldrum fyrir börn á flótta

syrlensk-flottborn

Sýrlensk börn í flóttamannabúðum

Barnaverndarstofa leitar nú af fólki sem er tilbúið að taka að sér börn sem eru fylgdarlaus á flótta frá heimalöndum sínum. Samkvæmt Barnaverndarstofu eru börn á flótta skilgreind sem einstaklingar undir 18 ára aldri sem koma án foreldra eða forsjármanna til landsins. Oftast hafa þessi flóttabörn verið nokkra mánuði á ferðalagi áður en þau komast hingað til lands. Langflest þessara barna eru drengir á aldrinum 14-17 ára.

Ljóst er að þörfin á því að vel sé tekið á móti þessum börnum er mikil. Flest, ef ekki öll, hafa þau upplifað ömurlegar aðstæður og jafnvel misst alla fjölskyldu sína. Þessi börn geta því verið mjög berskjölduð og viðkvæm, segir á vef Barnaverndarstofu. Undirbúningur er því nauðsynlegur fyrir þá sem ætla sér að taka að sér slík börn og býður Barnaverndarstofa upp á undirbúningsnámskeið dagana 27. október og 3. nóvember.

Námskeiðið er ætlað þeim sem höfðu samband við Barnaverndarstofu í kjölfar auglýsingar þann 15. febrúar síðastliðinn en þeir sem hafa áhuga á að bætast í hópinn og taka á móti barni í slíkum aðstæðum eru einnig velkomnir. Þeir sem hafa áhuga á að taka að sér flóttabörn geta sótt um að vera annað hvort vistforeldar eða fósturforeldrar. Munurinn á þessu tvennu er sá að vistforeldrar taka börn að sér til skamms tíma, í allt að 3 mánuði en fósturforeldrar eru þeir sem eru tilbúnir að taka börnin að sér til lengri tíma.

Á vef Barnaverndarstofu má lesa upphaflegu fréttina um námskeiðið og nálgast skjöl sem skýra það betur. Hægt er að hafa samband við Barnaverndarstofu i síma 530-2600 eða í tölvupósti bvs@bvs.is

Sambíó

UMMÆLI