Danero Thomas ósáttur – Fær ekki að fara

Danero Thomas

Danero Thomas

Athygli vakti að Danero Thomas var ekki í leikmannahópi Þórs í kvöld þegar liðið beið lægri hlut fyrir Grindavík í 8-liða úrslitum Maltbikarsins í körfubolta.

Danero er bandarískur bakvörður með íslenskan ríkisborgarrétt og hefur leikið hér á landi frá árinu 2013 en hann gekk í raðir Þórs fyrir síðasta tímabil og hefur verið í stóru hlutverki með liðinu í Dominos-deildinni í vetur.

Morgunblaðið birtir frétt á heimasíðu sinni í kvöld þar sem sagt er að kappinn sé á förum frá Þór vegna ósættis við spiltíma sinn en Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs, gat ekki staðfest það. Hann sagði þó í samtali við Morgunblaðið að staða Danero væri óljós í augnablikinu. Sjá frétt Morgunblaðsins hér.

Heimildir Kaffisins herma að það sé rétt að Danero hafi óskað eftir því að skipta um lið en leikmaðurinn er samningsbundinn Þór og hafa Þórsarar engan hug á því að hleypa honum í burtu.

Danero er giftur Fanney Lind Thomas sem lék með kvennaliði Þórs síðasta vetur og hluta af þessu tímabili. Hún yfirgaf Þór skyndilega í nóvember síðastliðnum og gekk til liðs við úrvalsdeildarlið Skallagríms.

Sjá einnig: Næststigahæsti leikmaður Þórs yfirgefur liðið

UMMÆLI

Sambíó