Glerárgatan eina ferðina enn

Sigurður Guðmundsson skrifar

Þegar ég fæddist var mér úthlutað ýmsum gæðum en einhverra hluta vegna gleymdist alveg að gefa mér þolinmæði ásamt hjarðeðli sem ég tel afar gott að hafa ekki fengið. Nú þegar tæpt ár er til kosninga er alveg kostulegt að horfa og hlusta á Sjálfstæðismenn byrja enn eina ferðina að röfla yfir þrengingu Glerárgötu. Einhverra hluta vegna er þetta blásið út sem hin mesta vá og hafa menn ekki frekar en fyrri daginn ekkert í að halda nema hjarðeðlið og góla sömu tugguna og foringinn talar fyrir. Engin ástæða er til að líta í kringum sig og reyna að skilja út á hvað þetta gengur allt saman. Við búum í bæjarfélagi þar sem er hending ef þú ert lengur en 5 mínútur milli staða. Nágrannasveitarfélögin sem hafa ekkert annað að gera heldur en að telja krónur og aura því Akureyrarbær sér eiginlega um alla félagsþjónustu fyrir þau, kvarta sáran ef íbúar þeirra þurfa hugsanlega að fara 30 sekúndum fyrr af stað heiman frá sér til að komast inn á Glerártorg. Veit ekki til að við Akureyringar séum að tuða mikið þegar dráttarvélar nágrannabyggðanna teppa hér þjóðvegi í firðinum allt sumarið. Enda erum við flest hver umburðarlynd. Ég get svarið það, að ég hef keyrt á eftir traktor nokkur hundruð metra og það hefur aldrei farið í skapið á mér og er ég frekar skapstór maður. Það hefur oft talið í mínútum en ekki sekúndum.

Varðandi blessaða Sjálfstæðismennina er auðvitað ekki frekar en fyrri daginn hægt að fá þá til að opna eyrun fyrir öðrum hugmyndum en hafa birst í einblöðungnum „Íslending“. Hann er meira leiðandi fyrir sálartetrið og sjálfstæða hugsun en Kóraninn er fyrir Sádi araba sem allir vita að stjórna landi sínu með gömlum kreðsum, ótta og almennri fávisku. Flestir líta undan hvernig þeir stjórna landi sínu enda eru peningar mikilvægari heldur en fólk. Eða það finnst allavega sumum. Þó oft á tíðum fyrrnefndum Sjálfstæðismönnum.

Nú verða líklega einhverjir Sjálfstæðismenn reiðir mér fyrir að ég skuli dirfast til að líkja þeim saman við hvítklædda ofsatrúarmenn sem eru með loðinn kleinuhring í andlitinu til að líta út fyrir að vera virðulegri. En það er allt í lagi því þeir hafa orðið mér reiðir áður.

En snúm okkur nú aftur að þessu lítilræði sem Glerárgatan er. Akureyri hefur upp á margt að bjóða en eitt er það sem hér vantar oft sárlega er iðandi mannlíf. Þegar ég ólst upp var höfnin og nágrenni hennar skemmtilegasti staður bæjarins. Þar ólmaðist maður stundum heilu og hálfu dagana sjálfum sér til gleði og vissulega oft öðrum til ama. Með þessu ágæta skipulagi sem nú er lagt upp með á að gera þetta svæði aðgengilegra með glæsilegri uppbyggingu á hafnarsvæðinu. Ná betri tengingum við dýrasta hús bæjarins sem var sannkölluð gjöf til gjalda handa okkur bæjarbúum. Þrír og hálfur milljarður í kostnað og milljón á dag til að reka það. Til að ná þessum markmiðum þarf að þrengja Glerárgötuna til að hægja á umferð og gera lóðir stærri til uppbyggingar. Þetta er ekkert flóknara en það. Ef 30-40 sekúndur af lífi sérhvers manns færi í að lesa ritið „Íslending“ kæmum við út á sléttu gagnvart sjálfstæðismönnum sem gætu þá farið að leggja inn eitthvað af viti inn í bæjarmálaumræðuna. Slétt skipti. Við lesum blaðið og þeir hætta að tuða.

Við gætum þá farið að ræða skólamál á Akureyri sem var á annan áratug undir handleiðslu mannsins sem vill verða bæjarstjóri á Akureyri. Sú handleiðsla setur okkur næstum í ruslflokk hvað varðar samanburð við önnur sveitarfélög í árangri grunnskólabarna.

Þá er komið að þolinmæði minni. Hún er þrotin í þessari Glerárgötu umræðu og í hjörð hef ég aldrei verið.

Njótið nú veðursins í stað þess að hanga í bíl á Glerárgötu.

ps.

Sjálfstæðismenn eru varaðir við að setja „like“ á þennan pistil. Það getur komið í bakið á þeim síðar. Ummæli eru samt skaðlaus.

Sambíó

UMMÆLI