Hamrarnir ósáttir við KSÍ: Óvíst hvort þær nái í lið á laugardag

Lið Hamranna

Íslenska landsliðið í knattspyrnu hóf leik á Evrópumeistaramótinu í gær þegar liðið tapaði á grátlegan hátt gegn Frökkum. Líkt og síðasta sumar er mikill áhugi á að fara út og fylgjast með landsliðinu okkar keppa á EM. Rakel Óla Sigmundsdóttir setti áhugaverða færslu inn á Facebook síðu sína í gær þar sem hún talaði um baráttu Hamranna við KSÍ.

Hamrarnir spila í 1.deild kvenna á Íslandi og eiga gríðarlega mikilvægan leik gegn Sindra fyrir höndum á laugardaginn, 22. júlí, sama dag og íslenska landsliðið mætir Sviss. Rakel segir að stjórn Hamranna hafi haft samband við KSÍ með bréfi þann 7. júlí og óskað eftir því að fá leiknum frestað. Margir lykilmenn liðsins séu leikmenn úr 2.fl Þórs/KA sem eru staddar í æfingaferð í Hollandi og að fylgjast með EM.

Hamrarnir fengu stuðning frá forráðamönnum Þórs/KA og bentu á að ferðin hefði ekki verið á dagskrá þegar hægt var að biðja um frí vegna EM í vor. Það hefði því verið ómögulegt fyrir þær að gera ráð fyrir þessu.

„Svörin sem við fengum svo loksins í dag voru að öll lið hafi fengið kost á því í vetur að óska eftir að leikir færu ekki fram á meðan EM stæði. Samt stendur í bréfinu sem við sendum frá okkur að þessi ferð hafi ekki verið á dagskrá og því ómögulegt fyrir okkur að vita að hún myndi hafa nokkurn hátt hafa áhrif á okkur.“ segir Rakel í Facebook færslunni.

Rakel bendir á að 1. deild karla hafi verið í algjöru fríi fyrir einu ári þegar karlalandsliðið keppti á EM í fyrra. „Afhverju í ósköpunum gildir ekki það sama um okkur, og það sem meira er af hverju er KSÍ í það minnsta ekki liðlegt þegar lið eru með mannskap þarna úti.“

„Nú er það svo að einn af mikilvægustu leikjum tímabilsins er væntanlega að fara fram á laugardaginn og jafnframt að Hamrarnir muni að öllum líkindum eiga erfitt með að ná í lið. Takk KSÍ!“ segir Rakel að lokum.

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó