Í skýjunum með fimm Íslandsmet á fimm dögum

Í skýjunum með fimm Íslandsmet á fimm dögum

Bryndís Rún Hansen, sundkona úr Óðni, stóð sig vel á HM í sundi í 25 metra laug á dögunum þar sem hún átti þátt í alls fimm Íslandsmetum. Tvö þeirra setti hún ein, í 50 metra flugsundi og 100 metra flugsundi en hún var einnig hluti af boðsundssveit Íslands sem setti þrjú Íslandsmet á mótinu.

Þessi 23 ára gamla Akureyrarmær býr á Hawaii þar sem hún æfir sund af miklum móð ásamt því að stunda þar nám. Í samtali við Kaffið kveðst Bryndís í skýjunum með árangurinn á mótinu.

,,Ég er rosalega ánægð með árangurinn. Það sem stóð upp úr var að komast í topp 16 undanrásir í 50m flugsundi. Ég gerði mér vonir um að komast áfram en vissi að ég hefði þurft að bæta mig frekar mikið til að það myndi ganga upp. Það er líka ákveðinn léttir að brjóta mínútu múrinn í 100m flugsundi. Svo náði kvennaboðsundssveitin ellefta sætinu í 4x100m fjórsundi sem við vorum svakalega ánægðar með.“

Bryndís bætti sig í öllum þeim greinum sem hún tók þátt í á mótinu og segir hún það alls ekki vera sjálfgefið. Hún er mikil keppnismanneskja og hyggst nýta reynsluna af mótinu til að verða enn betri.

,,Það er ekki gefið að bæta sig á hverju sundmóti og ég náði að bæta mig í öllum greinunum en auðvitað vill maður alltaf meira þegar komið er á svona stórt mót. Það var frábært að stórbæta mig um morguninn í 50m flugsundi en pínu svekkelsi að ná ekki að gera það sama um kvöldið. Í 50 metra grein gerist allt svo hratt að minnsta klúður segir til um nokkur sekúndubrot og það var það sem gerðist hjá mér. Það er alltaf gott að keppa á svona móti og keppa við þá bestu til að sjá hvar maður stendur. Ég læri af reynslunni og nota þetta sem hvatningu í gegnum æfingarnar næstu mánuðina.“

Margt á döfinni með skólaliðinu og landsliðinu

Þó mikið hafi mætt á Bryndísi í síðustu viku er lítill tími til að slaka á því það er nóg framundan hjá henni í lauginni. Þegar Kaffið náði tali af henni var hún nýkomin aftur heim til Hawaii frá Kanada, þar sem HM fór fram.

,,Núna er ég komin aftur til Hawai’i þar sem ég mun halda áfram í skólanum (University of Hawai’i) og æfa fram á sumar. Í febrúar og mars eru stóru háskólamótin sem eru hápunktar skólatímabilsins. Þar er mikilvægt að gera vel til að vekja athygli á skólanum og fá aðra sundmenn til að vilja koma og synda fyrir okkur. Næsta stóra keppni fyrir landsliðið er heimsmeistaramótið í 50 metra laug sem er næsta sumar og ég hlakka til að sjá hvernig formið mitt verður þá,“  segir Bryndís.

Eins og sjá má er nóg á döfinni hjá þessari öflugu sundkonu, bæði með skólaliðinu og landsliðinu. Bryndís er með háleit markmið á báðum vígstöðum.

,,Næsta markmið er að komast inn á NCAA sem er stærsta háskólamótið á tímabilinu, þar sem bestu sundmennirnir frá öllum háskólum í Bandaríkjunum keppa á. Ég keppti áður á NCAA þegar ég synti fyrir aðra deild en það er önnur saga að komast inn á mótið í fyrstu deild. Annars er líka markmiðið mitt að gera jafn vel á HM50 næsta sumar í Búdapest eins og gekk núna á HM25.“

UMMÆLI