Íbúar í Holta- og Hlíðarhverfi ósáttir eftir enn eitt slysið

Íbúar í Holta- og Hlíðarhverfi ósáttir eftir enn eitt slysið

Í gær var ekið á sex ára dreng á Hörgárbraut á Akureyri. Drengurinn var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar og þurfti að fara í aðgerð vegna lærbeinsbrots.

Íbúar Holta- og Hlíðahverfis hafa lengi kallað eftir breytingum á svæðinun en umferðarslys virðast ansi tíð við götuna. Í nóvember á síðasta ári var ekið á konu og hund hennar með þeim afleiðingum að hundurinn dó og konan fótbrotnaði. Skömmu áður var þriggja bíla árekstur við götuna.

Í kjölfar slyssins í gær hefur myndast lífleg umræða á Facebook hóp íbúa Holta- og Hlíðarhverfis. Þar benda nokkrir á að framkvæmdir við uppsetningu umferðarljósa við gangbrautina hafi hafist í maí en nú í lok september hafi lítið gerst.

Sjá einnig: Ekið á sex ára dreng á Akureyri

Margir íbúar telja það ekki nóg að setja upp umferðarljós og kalla eftir undirgöngum eða brú fyrir gangandi vegfarendur.

„Ljós og göngubraut er betra en ekkert. Aftur á móti er þetta falskt öryggi fyrir jafn umferðaþunga götu og þessi gata er. Slys gerast óháð því hvort að það séu gangbrautaljós. Munaði litlu fyrir nokkrum árum við ljósin hjá Stórholti þegar bíll gleymdi sér og keyrði í gegn á rauðu ljósi. Fengum hann næstum því á okkur en vorum sem betur fer einni akrein frá,“ segir einn íbúi.

Móðir drengsins sem ekið var á segir í hópnum að hún sé sammála þeim sem finnast ljós ekki nóg á jafn umferðarþungri götu. Hún kallar eftir því að íbúar í hverfinu taki sig saman og óski eftir brú.

„Í Reykjavík er allstaðar brú yfir helstu stofnæðar, því ekki hér? Ökumönnum er ekki treystandi, ljós eða ekki ljós. Þetta var barnið mitt, 6 ára að fara yfir þegar bíll stoppaði en þá fór annar framúr – ekki í fyrsta skipti og pottþétt ekki það síðasta – á sjalfri gangbrautinni. Hann lærbeinsbrotnaði og er í aðgerð. Sem betur fer fór ekki verr. Er samt hífandi reið!“ segir hún.

Sambíó

UMMÆLI