NTC

Jóhann Þór náði góðum árangri í Landgraaf

Jóhann Þór

Jóhann Þór í Landgraaf. Mynd: Úr einkasafni

Jóhann Þór Hólmgrímsson er 23 ára gamall Akureyringur sem hefur gert það gott í keppni á svokölluðum monoskíðum á undanförnum árum. Jóhann er hreyfihamlaður en hann tók til að mynda þátt á Ólympíumóti fatlaðra í Sochi árið 2014 og var þá fyrstur íslenskra karla til að keppa á Ólympíumóti fatlaðra.

Jóhann stóð í ströngu í síðustu viku þegar hann tók þátt í sterku móti sem haldið var í Landgraaf í Hollandi. Keppnisdagarnir voru fjórir en á þeim fyrsta lenti Jóhann í 15.sæti. Annar dagurinn fór ekki nógu vel þar sem Jóhann datt úr leik í fyrstu ferð.

Hann lét það ekki á sig fá og náði góðum árangri seinni tvo dagana þar sem hann endaði fyrst í 9.sæti og svo í 12.sæti.

Í samtali við Kaffið kveðst Jóhann mjög ánægður með mótið í Landgraaf en það að ná að vera svona ofarlega seinni tvo dagana gerir það að verkum að Jóhann er kominn með keppnisrétt á heimsbikarmótum í vetur.

Jóhann Þór Hólmgrímsson. Mynd: Úr einkasafni

Jóhann Þór Hólmgrímsson. Mynd: Úr einkasafni

Landgraaf skíðasvæðið er einstakt og segir Jóhann það hafa verið sérstaka upplifun að keppa þar en skíðasvæðið er innandyra og er það stærsta sinnar tegundar í heiminum.

,,Aðstæðurnar í Landgraaf eru aðeins öðruvísi en ég er vanur þar sem þetta er innanhússvæði,“ segir Jóhann.

Það er nóg framundan hjá þessum öfluga íþróttamanni en hann keppir á tveimur stórum mótum á næstunni.

 ,,Næsta mót er 6. desember og verður það haldið í Pitztal í Austurríki. Stefnan er svo að fara á heimsmeistaramótið í Tarvisio á Ítalíu 22. janúar,“ segir Jóhann að lokum.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó