Prenthaus

Mestu ómerkilegheit Kristjáns Þórs til þessa

Sigurður Guðmundsson skrifar


Þessi pistill er aðsend grein. 

Þetta er orðið ágætt!

Ef ég reiðist, verð ég alvega ferlega reiður og það gerðist í dag. Mér leiðist afar mikið og get orðið öskuillur ef illa er komið fram við einhvern sem ég þekki. Það gerðist með hressilegum hætti í dag og mun væntanlega hafa eftirmála.

Einn af mínum bestu vinum er nýorðinn þingmaður Sjálfstæðisflokksins í norðaustur kjördæmi. Njáll Trausti Friðbertsson var kjörinn á þing, annar maður á lista flokksins eftir sigur á kjördæmisþingi við sitjandi þingmann um annað sætið. Sá þingmaður er Valgerður Gunnarsdóttir og væri líklega atvinnulaus í dag ef Njáll hefði ekki náð þessu öðru sæti. Hún fékk þriðja sætið að gjöf á kjördæmisþinginu eftir að mótframbjóðandinn um þriðja sætið, Arnbjörg Sveinsdóttir sem reiknaði með að Njáll myndi tapa í kjörinu um annað sæti og ætti heldur ekki roð í það þriðja, gaf það eftir án kosninga. Hún ætlaði allskostar ekki að fara í slag við vinkonu sína sem hún var í kosningabandalagi með, gegn Njáli. Féll þar spilaborg sitjandi þingmanna sem lögðu upp eftirfarandi.

1. Kristján Þór Júlíusson.
2. Valgerður Gunnarsdóttir.
3. Arnbjörg Sveinsdóttir.

Í hinu alræmda 6. sæti væri best að hafa Njál og neðar væri líklega enn betra.

Við skulum hafa það á hreinu að það ber að þakka Njáli Trausta að Sjálfstæðismenn fengu þrjá þingmenn hér í kjördæminu. Varla hefur Valgerður sópað að sér fylgi með því að vera afar atkvæðalítill þingmaður á sl. kjörtímabili. Hóf raust sína úr ræðustól í tæpa 6 klukkutíma á þremur og hálfu ári. Það gerist varla lélegra. Er ekki þarmeð að segja að hún hafi ekki unnið fyrir kaupinu sínu, er eflaust dugleg á bakvið tjöldin. En hún safnar ekki atkvæðum. Það gerði Njáll Trausti hinsvegar. Hann hefur verið afar áberandi undanfarin ár þegar samgöngumál hafa verið til umræðu. Ber þar auðvitað hæst óbilandi vinna og skrif til varnar tilveru Reykjavíkurflugvallar. Þetta hefur skapað honum vinsældir og er öruggt að þingmenn flokksins væru tveir í kjördæminu ef hans hefði ekki notið við. Er óhætt að segja að ástríða hans fyrir samgöngumálum hafi átt mest áhrif á niðurstöður kosninganna fyrir Sjálfstæðisflokkinn í kjördæminu. Án efa afar hæfur maður til að leiða Samgöngunefnd.

Eftir vægast sagt undarlegan ráðherrakapal forkólfa flokksins mátti búast við að jafnar yrði gefið við nefndarúthlutanir og formennsku í þeim. Því er aldeilis ekki að heilsa. Byrjar þá gamalgróin innanbúðar skítalykt að dreifa sér um dali og firði. Ekkert hefur breyst þegar á hólminn er komið. Sama spillingin endurtekur sig í þessu kjördæmi eina ferðina enn. Og alltaf kemur sami maðurinn að málum. Manni líður stundum einsog maður sé staddur í miðri Harry Potter mynd. Svo undarlegt er sögusviðið. Nafn hans má ekki nefna upphátt, þá kemur svarta skýið og verður þér að aldurtila eða þú lendir í óútskýrðum vandræðum.

Kristján Þór Júlíusson er áfram ráðherra og það undarlega er að þriðji þingmaður flokksins í kjördæminu sem fékk stöðulækkun á kjördæmisþingi er tekinn fram yfir manninn sem í raun tryggði niðurstöðu kosninganna.

Hvers vegna og um hvað er ég eiginlega að tala. Það er frekar erfitt að beisla orðin. Jú, ég er að tala um það að í stað þess að láta virkilega hæfan mann leiða Umhverfis og Samgöngunefnd, mann sem hefur borið af í kjördæminu þegar kemur að umræðum um samgöngur, mann sem tryggði í raun þennan eina þingmann sem heldur þessum meirihluta saman. Þá er Valgerður Gunnarsdóttir orðin formaður umhverfis og samgöngunefndar þrátt fyrir að hafa varla tjáð sig um málaflokkinn undanfarin 4 ár.

Hvernig getur svona gerst. Hversu illa og ömurlega er hægt að koma fram við mann sem hefur sinnt þessum málaflokki af einstakri festu og dugnaði. Þetta er lítilsvirðing við manninn. Svona lagað gerist ekki óvart. Þetta er án efa fólskuleg viðbrögð Kristjáns Þórs og Valgerðar til þess eins að halda Njáli úti í kuldanum. Enn eina ferðina setur núverandi menntamálaráðherra naglaspýtu á slóða hans á pólitískum vettvangi. Ég trúi ekki öðru en að stuðningsmenn Njáls Trausta láti sverfa til stáls við þau skötuhjúin. Í annann stað er hægt að keyra hnefann í borðið af hálfu Njáls og krefjast breytinga. Það á ekki að láta bjóða sér þetta. Þetta snýst ekki um frekju heldur réttmætar kröfur til starfa. Svo er alveg hægt að sprengja þennann meirihluta. Það er kannski einfaldast.

Til þess þarf þor og styrk.

Sambíó

UMMÆLI