Stærsta málið að tryggja öllum gott líf

14264848_1246420078715796_2520143920851612726_n-%281%29

Bjartur Aðalbjörnsson

,,Það eru fáir á mínum aldri sem hafa sama áhuga og ég á pólitík enda er ekkert auðvelt að halda fókus á allri þjóðfélagsumræðunni. Hjá mér sjálfum hefur áhuginn komið og farið í bylgjum undanfarin ár en er nú kominn til að vera,“ segir Bjartur Aðalbjörnsson, 22 ára Vopnfirðingur sem skipar 4. sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi. Bjartur býr á Vopnafirði þar sem hann spilar fótbolta með Einherja og kennir íþróttir ásamt því að stunda fjarnám við Háskólann á Akureyri.

 

Stofnaði félag jafnaðarmanna í MA

Bjartur segir áhugann á stjórnmálum einhvernveginn alltaf hafa verið til staðar í hans lífi. ,,Fjölskyldan mín er mjög pólitísk og ég hef alist upp við það að fylgjast með öllum fréttatímum og hlusta á frænkur og frændur rífast um pólitík við eldhúsborðið.” Bjartur fór að starfa í pólitík árið 2013 í aðdraganda kosninga. Hann stofnaði félag jafnaðarmanna í Menntaskólanum á Akureyri og tók síðan við formennsku í Sölku, félagi ungra jafnaðarmanna á Akureyri í framhaldi af því.

11667488_10153479994337072_1949848259411825048_n-%281%29

,,Öll börn og unglingar eiga að geta stundað íþróttir og aðra tómstundaiðju óháð efnahag.“

Vilja keyra á námsstyrkjakerfi

,,Fyrir mér er stærsta málið að tryggja öllum gott líf. Við þurfum að tryggja öllum aðgang að góðu heilbrigðiskerfi,
menntun og húsnæði. Öll börn og unglingar eiga að geta stundað íþróttir og aðra tómstundaiðju óháð efnahag. Peningar eiga ekki að koma í veg fyrir velferð,“ segir Bjartur og bætir við að eitt stærsta mál ungra jafnaðarmanna í kosningarbaráttunni sé efling Lánasjóðs íslenskra námsmanna, LÍN. ,,LÍN á að bjóða upp á hagstæð námslán sem henta landsbyggðarfólki og fjölskyldufólki. Við viljum keyra á námsstyrkjakefi með því að setja meiri peninga inn í LÍN. Námslán og styrkir eiga að jafna tækifæri til menntunar og lánin mega ekki vera íþyngjandi í lok náms.”

 Verður alltaf jafnaðarmaður

Bjartur segir jafnaðarmenn út um allan heim sínar fyrirmyndir í stjórnmálum, þeir sem berjist gegn misskiptingu og fyrir jöfnuði. ,,Samfylkingin er jafnaðarmannaflokkur Íslands. Ég er jafnaðarmaður og það er alveg sama hvað verður um Samfylkinguna, þá verð ég alltaf jafnaðarmaður. Jafnaðarmenn sköpuðu bestu velferðarríki heims í Skandinavíu og það viljum við gera hér á Íslandi. Ísland er rík þjóð. Við eigum helling af auðlindum og ferðamenn streyma til landsins. Nóg er af peningum í landinu. Þeim er einfaldlega ekki skipt á nógu réttlátan hátt. Við jafnaðarmenn viljum skipta peningunum á réttlátari hátt og tryggja þannig öllum gott líf.” Hann segist hafa fundið fyrir miklum stuðningi með sitt framboð. ,,Vinir mínir og félagar hafa lýst mikilli ánægju með framboðið. Þeir vita fyrir hvað ég stend og styðja mig heilshugar í baráttunni um varaþingmannssæti.”

Líður vel á Vopnafirði

Bjartur er mikill fótboltaáhugamaður og spilar fótbolta með Einherja í heimabæ sínum. Hann vill helst búa á heimaslóðum í kringum fjölskyldu sína og ættingja og kveðst líða vel á Vopnafirði. ,,Ég nýt þess að vera einn út í náttúrunni eða einn með ljóðum Davíðs Stefánssonar. Í stað þess að kvarta yfir því hvað staðurinn hefur lítið upp á að bjóða ætla ég að vinna í fleiri tækifærum fyrir Vopnfirðinga.”

 

13245404_10207390484337509_3279571217928624979_n

,,Ég nýt þess að vera einn út í náttúrunni eða einn með ljóðum Davíðs Stefánssonar.“

Sambíó

UMMÆLI