Sýnt frá HM á risaskjá á Akureyri

Aron Einar verður í eldlínunni í Rússlandi í sumar.

Boðið verður upp á útsendingar frá leikjum Íslands á HM í Rússlandi á risaskjá neðst í Listagilinu á Akureyri. Ísland er í riðli með Argentínu, Nígeríu og Króatíu á mótinu og mun að minnsta kosti spila þrjá leiki.

Það eru Útvarp Akureyri FM 98,7 og Ölstofa Akureyrar sem munu bjóða Akureyringum upp á risaskjáinn til að njóta fótboltaveislunnar. Settur verður upp 15 fermetra skjár neðst í gilinu.

Leikir Íslands verða 16. júní gegn Argentínu, 22. júní gegn Nígeríu og 26. júní gegn Króatíu.

Í fréttatilkynningu segir:

Það er Útvarp Akureyri FM 98,7 og Ölstofu Akureyrar mikill heiður að fá að bjóða Akureyringum upp á að koma saman og fylgjast með þessu einstaka ævintýri sem verður fyrir víst í minnum haft – hvernig sem leikar fara.

Ölstofa Akureyrar og Útvarp Akureyri FM 98,7 þakka sérstaklega Akureyrarstofu og Akureyrarbæ fyrir að liðsinna í þessu frábæra verkefni sem svo sannarlega setur lit sinn á samfélagið hér á Akureyri.

Á leikdögum verður mikil stemming og atriði bæði á undan leik, í hálfleik og eftir leik. Þetta er því nokkurra klukkustunda veisla í hvert skipti sem sent verður beint frá Rússlandi á risaskjánum í gilinu.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó