Á þriðja þúsund manns skemmtu sér konunglega í Color Run á Akureyri

Magni Ásgeirsson, skipuleggjandi The Color Run á Akureyri, Svavar Máni Gunnarsson, 12 ára Hetja og Monika Margrét Stefánsdóttir, gjaldkeri hjá Hetjunum á Akureyri

Síðastliðinn laugardag fór litahlaupið fram í fyrsta sinn á Akureyri og er óhætt að segja að bærinn hafi verið með litríkara móti. Vel á þriðja þúsund manns skemmti sér vel í þessu fimm kílómetra langa skemmtilhlaupi sem farið hefur sigurför um heiminn undanfarin 5 ár. Hlaupið hófst og endaði á svæðinu við hlið Akureyrarvallar þar sem heilmikil skemmtidagskrá fór fram. Áttan steig á stokk og flutti þrjú lög, þar á meðal lag litahlaupsins, Color The World sem Áttan hljóðritaði á síðasta ári. Greta Salóme og Magni Ásgeirsson voru kynnar hlaupsins og um tónlistina sá danski plötusnúðurinn Jean Eric Von Baden.

„Þetta gekk rosalega vel og við erum gríðarlega þakklát þeirri móttöku sem hlaupið fékk hér fyrir norðan,” segir Magni Ásgeirsson, skipuleggjandi litahlaupsins á Akureyri. „Við erum í skýjunum og það er engin spurning að við viljum koma með hlaupið aftur á Akureyri á næsta ári og förum við strax í að tryggja að svo verði. Við þökkum öllum gestum sem tóku þátt í hlaupinu, þeim sem hjálpuðu okkur að skipuleggja viðburðinn hér á Akureyri og síðast en ekki síst þeim nágrönnum sem búa við hátíðarsvæðið og á hlaupaleiðinni. Það tóku allir svo vel í þetta og höfðu einfaldlega bara gaman af því að lita tilveruna svona hressilega í einn dag.”

UMMÆLI

Sambíó