Logi segir óboðlegt að setja öldrunarheimili í einkarekstur

Logi segir óboðlegt að setja öldrunarheimili í einkarekstur

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar og oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi, er ekki ánægður með þær fréttir að öldrunarheimilin á Akureyri verði rekin af einkahlutafélaginu Heilsuvernd í næstu framtíð. Logi skrifaði um málið á Facebook-síðu sinni í dag.

„Vegna of lítilla rekstrarframlaga frá ríkinu, sem þó ber ábyrgð á rekstri hjúkrunarheimila, sá Akureyrarbær sér ekki mögulegt að reka heimilin áfram með halla ár eftir ár. halla sem var greiddur af fjármagni sem átti að fara í aðra þjónustu við bæjarbúa. Og Akureyrarbær hefur borgað með rekstrinum í mörg ár í þeirri góðu trú að ríkið mundi koma með eðlilegum og sanngjörnum hætti að fjármögnun þess. Þetta er sérstaklega ósanngjarnt og rýrði samkeppnishæfi bæjarins, þar sem víða eru hjúkrunarheimili rekin af ríkinu og þá lendir hallinn ekki á viðkomandi sveitarfélagi. En fyrst ríkið treysti sér ekki til að láta meira fé til sveitarfélagsins hefði ég kosið að stjórnvöld hefði falið heilbrigðisstofnun svæðisins (HSN) eins og gert er víða um land,“ skrifar Logi.

„Öldrunarheimili Akureyrar hafa verið rekin á grundvelli Eden hugmyndafræði þar sem áhersla er lögð á fjölbreytileika til að auðga daglegt líf hvers og eins, með því að skapa aðstæður þar sem lífið snýst um náin samskipti, tengsl og óvæntar uppákomur. Markmiðið er að koma í veg fyrir einmanaleika, vanmáttarkennd og leiða, sem eru meðal meginástæðna vanlíðunar íbúa hjúkrunarheimila. Nú verður fróðlegt að fylgjast með hvort ríkisstjórnin muni veita þessu fyrirtæki aukið fé svo hægt sé að halda áfram með þá góðu þjónustu sem innt hefur verin af hendi eða hvaða leið hinn nýji rekstraraðili hyggst grípa til að koma rekstrinum á réttan kjöl; rekstri sem hefur verið með hundruða milljóna halla á ári í all mörg ár.“

Logi óttast að ef ekki verði veitt auknu fé til rekstursins muni hagræðingaraðgerðir ekki allar verða í þágu íbúa á heimilinum. Þá segir hann ömurlegt að stjórnvöld undir forystu Vinstri Grænna standi að því að setja öldrunarheimili í einkarekstur.

„Ég óttast því miður að verði ekki veitt auknu fé til rekstursins muni hagræðingaraðgerðir ekki allar verða í þágu gamla fólksins sem á skilið að fá að lifa áhyggjulaust ævikvöld, við gott atlæti að loknu drjúgu dagsverki. Þá er ég hræddur um að þetta geti haft áhrif á starfsumhverfi og kjör starfsfólks.Þessi áform ríkisstjórnarinnar standa því miður líklega óhögguð en það er mikilvægt að bæjarbúar og landsmenn allir fylgist vel með hvaða áhrif þetta hefur á íbúana. Með öðrum orðum hvað einkavæðing hjúkrunarheimila hefur í för með sér. Í fyrsta lagi finnst mér óboðlegt að setja öldrunarheimili í einkarekstur, ekki síst i miðri Kóvíd kreppu. Í öðru lagi ömurlegt að stjórnvöld undir forystu VG standi að því.“


UMMÆLI

Sambíó