Mannfólkið breytist í slím á Akureyri

Mannfólkið breytist í slím á Akureyri

Listakollektívið MBS stendur fyrir hátíðinni Mannfólkið breytist í slím á Akureyri um helgina. Hátíðinni mætti lýsa sem óhagnaðardrifnu menningarverkefni með áherslu á staðbundna grasrótar- og jaðarmenningu. Hátíðin er haldin árlega í og við Gúlagið, æfinga- og upptökurými MBS í gamalgrónu iðnaðarhverfi á Oddeyrinni á Akureyri.

Frá því hátíðin var fyrst haldin 2018 hefur hún vaxið jafnt og þétt og spannar nú heila helgi auk upphitunartónleika í vikunni fyrir. Séð er fram á áframhaldandi vöxt næstu ár. 

Sjá einnig: Rýnt í: MBS á Akureyri

Flest atriðin sem koma fram í ár eru frá Akureyri eða hafa sterka tengingu við útgáfufélagið MBS. Markmiðið er að efla senuna á Norðurlandi í heild með hjálp gesta sem koma annarsstaðar að og eru framúrskarandi í sinni listsköpun. Miðað er við að 2/3 atriða séu úr héraði en þannig er hlutfallið í ár og hefur verið frá upphafi.

„Hátíðin hefur mikla sérstöðu á landsvísu því það er blómleg tónlistarsena á Akureyri og eitt helsta markmið okkar er að undirstrika hana og hvetja ungt og upprennandi tónlistarfólk allsstaðar að af landinu til dáða, búa til tengingar milli landshluta og skapa góða stemningu,“ segir í tilkynningu.

Í samstarfi við Aflið – samtök gegn kynferðis og heimilisofbeldi og Bjarmahlíð Akureyri, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis verður sérstakt öruggt rými fyrir gesti á tónleikasvæði MBS 2021. Fulltrúar frá Bjarmahlíð og Aflinu verða til staðar auk upplýsinga um hvert er hægt að leita ef eitthvað kemur uppá eða öryggi einhvers er ekki tryggt.

Linkur á facebook viðburð:

https://fb.me/e/3sYIOT65V

MBS á Facebook og Instagram:

https://www.facebook.com/mbsskifur

https://www.instagram.com/mbsskifur/

Styrktar- og samstarfsaðilar MBS 2021 eru Akureyrarbær, SSNE, Norðurorka, Tónlistarsjóður RANNÍS, Segull 67 og Akureyri Backpackers.

Sambíó

UMMÆLI