Bogi Ágústsson fjölmiðlamaður var heiðursgestur Háskólahátíðar 2025 og ávarpaði kandídata í grunnnámi á laugardeginum. Hann nýtti tækifærið til að miðla af reynslu sinni sem fjölmiðlamaður og ítrekaði mikilvægi notkunar gagnrýnnar hugsunar við lestur á upplýsingum.
Smelltu hér til að lesa nánar um Háskólahátíðina
„Eitt af því sem hefur gjörbreyst frá því ég byrjaði í fréttamennsku er netið sem hefur gjörbylt daglegu lífi, til hins betra og til verri vegar. Netið hefur gefið illa þenkjandi fólki og vitleysingum vettvang til að romsa upp úr sér alls kyns þvælu og samsæriskenningasmiðir geta komið brengluðum kenningum á framfæri á samfélagsmiðlum. Ég get sagt ykkur af langri reynslu að þegar sumir þykjast sjá samsæri sé ég klúður, klaufagang og slysni í 99 tilfellum af hundrað. Upplýsingaóreiða og falsfréttir tröllríða samfélagsmiðlum og því bið ég ykkur um að vera gagnrýnin á það sem þið sjáið og lesið. Það er reginmunur, eðlismunur, á því sem er birt nafnlaust á TikTok, Youtube og víðar og því sem ritstýrðir miðlar láta frá sér, miðlar sem taka ábyrgð á efni sínu.”
Bogi fór svo yfir í það að vissulega hefði margt breyst til batnaðar síðastliðna áratugi og beindi eftirfarandi orðum til salarins: „Gleymum því ekki hinu jákvæða, prísum okkur sæl að vera uppi á þessum tímum þó að ykkur geti fundist ýmislegt að í heiminum. Munum að við búum í einu ríkasta landi veraldar. Hér eru lífsskilyrði, lífskjör og réttindi sem stór hluti mannkyns nýtur ekki. Við búum við virkt lýðræði, mannréttindi, réttaröryggi, jafnrétti, öryggi og frið. Það er ekki sjálfgefið og við verðum að gæta lýðræðisins, taka þátt, kjósa og bjóða okkur fram ef hugur okkar stendur til þess.”
Hann endaði ræðuna á að vísa í bjartsýni sem kemur fram í verkum Hannesar Finnssonar biskups: „Látum þá bjartsýni verða okkur nútímafólki til fyrirmyndar. Það gildir ekki bara á Íslandi heldur um heim allan. Gangi ykkur allt í haginn og gerið heiminn betri.”


COMMENTS