Góð kartöfluuppskera þetta árið

Góð kartöfluuppskera þetta árið

Nú er kartöfluuppskeran byrjuð hjá flestum bændum og því geta Norðlendingar tekið gleði sína á ný. Uppskeran á síðasta ári var ekki með besta móti og var alla jafna frekar slæm á landsvísu.

Björgvin Helgason og Hildigunnur Sigurðardóttir, kartöflubændur á Einarsstöðum/Sílastöðum, byrjuðu nýverið að taka upp kartöflur til að selja í búðir en alvaran tekur þó ekki við fyrr en í seinni hluta ágúst þegar þau byrja að færa þær til geymslu. Eins og er taka þau mest upp af Solist kartöflum, sem eru þýskt afbrigði þekkt fyrir skjótan vöxt og milt og gott bragð, fyrr í dag tóku þau þó upp gullauga og rauðar íslenskar sem íslendingar þekkja vel. Björgvini og Hildigunni líst vel á uppskeruna þetta árið og telja að hún verði að minnsta kosti betri en í fyrra.

Aðspurður segir Björgvin að sér finnist best að sjóða glænýjar kartöflur upp úr vel söltu vatni, án alls meðlætis. Hildigunnur segir þær bestar með smjöri og salti, einnig á hún það til að setja trufflusmjör og parmesan ost yfir þær.

COMMENTS