Jolanta Brandt sem er fædd og uppalin í Póllandi kom til Íslands ásamt eiginmanni sínum haustið 2006 og ákvað nýverið að opna fyrstu LPG Endermologie stofuna á Norðurlandi. Stofan ber heitið Silkihúð og sérhæfir sig í húðmeðferðum og sogæðanuddi. Fyrstu þrjú árin bjó Jolanta í Hrísey ásamt eiginmanni sínum og þar eignuðust þau sitt fyrsta barn, Magdalenu Brandt, sem vill svo skemmtilega til að er einn af starfsmönnum Silkihúðar, ásamt Jolöntu sjálfri og Írisi Björk Magnúsdóttir. Vorið 2009 flutti fjölskyldan til Dalvíkur og eignaðust hjónin soninn Patryk ári seinna.
En af hverju ákvað hún að opna slíka stofu hér á svæðinu?
„Sjálf hef ég farið oft í svipaðar meðferðir í Póllandi og fann hvað þær höfðu jákvæð áhrif á bæði líkamlega vellíðan og húðina. Þar sem maður getur ekki alltaf verið að ferðast til útlanda eða suður á land ákvað ég að opna fyrstu LPG Endermologie stofuna hér á Norðurlandi, á Dalvík. Markmiðið mitt er að gera þessar frábæru meðferðir aðgengilegar fyrir fólk hér á svæðinu, án þess að það þurfi að ferðast langar leiðir til að njóta þeirra,“ segir Jolanta.
Stærsta áskorunin við opnun á stofunni segir Jolanta hafa verið að taka ákvörðunina sjálfa, að taka fyrsta skrefið og stofna fyrirtækið. Það fylgi alltaf ákveðin óvissa þegar maður fari í svona verkefni, sérstaklega þegar um er að ræða nýjung á markaði.
„En ég fann strax mikinn áhuga og forvitni frá fólki hér á Norðurlandi sem styrkti mig í þeirri trú að þetta væri rétta skrefið. Við stefnum að því að byggja upp tryggan hóp viðskiptavina sem koma reglulega, því reglulegar meðferðir skila langvarandi árangri. LPG Endermologie er meira en bara meðferð, þetta er lífsstíll,“ segir Jolanta.
Um hvernig ferlið virki allt saman segir Jolanta að tekið sé á móti viðskiptavininum í rólegu og notalegu umhverfi. Síðan séu væntingar og markmið með meðferðinni rædd svo viðskiptavinurinn viti nákvæmlega hvað sé framundan. Því næst sé útvegað sérstakan meðferðarbúning til þess að tryggja hreinlæti. Að því loknu er lagst á bekkinn og meðferðin hefst. Jolanta segir marga upplifa meðferðina eins og djúpslökun og nuddið geti verið ótrúlega notalegt. Þegar meðferðinni lýkur fer viðskiptavinurinn út með bæði betri tilfinningu í líkamanum og ferskari húð.
Jolanta segir að fyrir þá sem séu forvitnir, en ekki tilbúnir að fara strax í lengri meðferðir, þá bjóði hún upp á sérstaka prufutíma. Prufutíminn er aðeins 15 mínútur að lengd og hægt er að velja hvort prófað sé líkams- eða andlitsmeðferð. Þetta segir hún að sé frábær leið til að kynnast tækninni og finna á eigin skinni hvað LPG Endermologie hefur upp á að bjóða.
„Það gleymist oft að húðin er stærsta líffæri líkamans og hún á skilið að við hugum vel að henni. LPG Endermologie er náttúruleg og örugg meðferð sem örvar frumur líkamans með sérstöku sogæðanuddi. Hún stuðlar að auknu blóðflæði, eykur framleiðslu kollagens og elastíns og hjálpar líkamanum að losa sig við eiturefni. Meðferðin hentar mjög vel fyrir þá sem vilja bæta áferð húðarinnar, draga úr appelsínuhúð, fá stinnari húð eða einfaldlega slaka á og gefa líkamanum gott viðhald, óháð kyni, aldri eða líkamsgerð,“ segir Jolanta að lokum.
Silkihúð er staðsett að Sandskeiði 22, Dalvík. Opnunartímar eru 08:00-21:00 alla daga og hægt er að bóka tíma hjá Silkihúð inn á silkihud.is, Noona appinu eða í símanr. 867-4046.


COMMENTS