Kvikmyndasafn Íslands hefur sett inn mikið efni eftir Akureyringinn Vigfús Sigurgeirsson á vef sinn islandafilmu.is. Vefurinn hefur hlotið ákaflega góðar viðtökur frá því að hann opnaði árið 2020 og hefur að geyma um 700 myndskeið og heilar myndir sem fólk getur horft á sem og að fjölmiðlar geta notað hlekki á efni tengt fréttum eða öðrum umfjöllunum sér að kostnaðarlausu.
Vigfús Sigurgeirsson er einn af frumkvöðlum íslenskrar kvikmyndagerðar og í því myndefni sem birtist nú almenningi er að finna hluta af því myndefni sem Vigfús tók á ferðum forseta Íslands. Stærstur hluti þess efnis hefur sjaldan eða aldrei verið sýndur opinberlega, en um er að ræða myndir af fyrstu forsetum Íslands, sér í lagi af Sveini Björnssyni og Ásgeiri Ásgeirssyni.
Meðfylgjandi hlekkur sýnir myndband af því þegar finnsku forsetahjónin Urho Kekkonen og Sylvi Kekkonen voru í opinberri heimsókn á Íslandi í ágúst árið 1957. Ásgeir Ásgeirsson forseti og Dóra Þórhallsdóttir forsetafrú taka á móti forsetahjónunum. Flogið er til Akureyrar þar sem móttaka á sér stað við Akureyrarkirkju. Forsetarnir koma víða við, meðal annars í Reykjahlíð og á Geiteyjarströnd þar sem vel fer á með Kekkonen og ábúendum í sveitinni.
https://www.islandpaafilm.dk/is/klip/kekkonen-finnlandsforseti-ferdast-um-nordurland


COMMENTS