Knattspyrnukonurnar Hulda Ósk Jónsdóttir og Agnes Birta Stefánsdóttir hafa báðar skrifað undir nýjan samning við stjórn Þórs/KA og verða áfram í herbúðum félagsins næstu tvö árin hið minnsta.
Agnes Birta hefur spilað sem miðvörður mestallan sinn feril í meistaraflokki, en hún spilaði sem miðjumaður í yngri flokkum og fyrstu árin í meistaraflokki. Hún hefur verið í byrjunarliði Þórs/KA í nær öllum leikjum undanfarin ár, klettur í vörninni.
Hulda Ósk er á sínu 10. tímabili með Þór/KA og 14. ári samanlagt í meistaraflokki. Hún á að baki 258 leiki með Þór/KA í Íslandsmóti, bikarkeppni, deildabikarkeppni, meistarakeppni KSÍ og Meistaradeild Evrópu. Leikirnir í efstu deild eru samanlagt 189, þar af 173 með Þór/KA og 16 með KR.
Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, fagnar því að hafa Huldu og Agnesi áfram í herbúðum Þór/KA.
„Það er frábært fyrir okkur í Þór/KA að Hulda Ósk skrifi undir nýjan samning. Hulda er einn af þessum leikmönnum sem hefur varðað leið Þór/KA í fjöldamörg ár. Ólíkindatól með boltann og gefur liðinu alltaf einhverja spennandi kosti í sókninni. Gríðarleg reynsla, hæfileikar og frábær karakter sem á klárlega eftir að hjálpa liðinu að ná markmiðum sínum á næstunni,“ segir Jóhann Kristinn um Huldu Ósk.
„Agnes Birta er jaxl sem gefur aldrei neitt eftir. Það er mjög gott fyrir Þór/KA að hún skrifi undir nýjan samning og við njótum því krafta hennar áfram. Gefur sig alltaf alla í leiki og æfingar og verður bara betri með hverjum deginum. Hún er klárlega ein af þessum stoðum sem eru að styrkjast undir þeirri vegferð sem Þór/KA ætlar sér að feta áfram í átt að settum markmiðum,“ segir Jóhann Kristinn um Agnesi Birtu.
Nánar má lesa um feril þeirra Huldu og Agnesar á vef Þór/KA í dag.


COMMENTS