Stjórnin mun halda stórtónleika í Hofi 4. október næstkomandi. Sigga Beinteins og Grétar Örvars fara yfir glæsilegan ferilinn og flytja öll vinsælustu Stjórnarlögin ásamt hljómsveit, bakraddasöngvurum og sérstökum leynigesti.
Margir Akureyringar og aðrir Norðlendingar eiga skemmtilegar minningar frá böllum Stjórnarinnar í Sjallanum, á árunum 1990-1996, þegar hljómsveitin spilaði þar á sumrin.
„Fyrsta ball sumarsins úti á landi var alltaf í Sjallanum“, segir Grétar og bætir við: „Það var oftast pakkfullt hús og röð út úr dyrum. Það var alltaf tilhlökkunarefni að koma norður og spila í Sjallanum. Stemningin á þessum árum var engu lík og Akureyri var okkar uppáhaldsstaður.“
Stjórnin hefur aðeins einu sinni áður spilað í Hofi. Það var með SinfoNord á síðasta ári þegar lög þeirra voru færð í hátíðlegri búning.
„Að þessu sinni ætlum við að færa Sjallastemninguna yfir í Hof og láta gamminn geysa líkt og forðum daga“, segir Sigga. „Hof er líka svo glæsilegt tónlistarhús, með góðu hljóðkerfi og flottum ljósum.“
Stjórnartónleikar eru mikið partý og fólk rís oftar en ekki úr sætum til að syngja með og dansa. Sigga og Grétar segjast hlakka mikið til hausttónleikanna og vonast til að sjá gömlu góðu andlitin á fyrrum gestum úr Sjallanum.



COMMENTS