RAKEL, Nanna og Salóme Katrín gefa út nýtt lag og myndband 

RAKEL, Nanna og Salóme Katrín gefa út nýtt lag og myndband 

Í dag kemur út þriðja smáskífan af væntanlegri plötu RAKEL-ar, a place to be. Lagið pickled peaches er samið í samvinnu við Nönnu úr Of Monsters and Men og Salóme Katrínu en í laginu má einnig heyra bassaleikarann og tónskáldið Skúla Sverrisson auk annarra góðra gesta.

pickled peaches var samið í sumarbústaðarferð fullri af mat, hlátri og tónlist, en í því fléttast saman raddir þeirra þriggja svo nánast ómögulegt er að greina á milli. Hljóðheimurinn er mjúkur og náinn; í bakgrunni heyrist braka í sumarbústaðargólfinu og suða í rafmagninu en allt verður þetta hluti af augnablikinu sem fangað var í upptökunni.

„Lagið er um allt sem mér þykir vænst um – vináttu, að njóta, og öryggi,“ segir RAKEL. „Við þrjár höfum spilað og túrað ansi mikið saman og spilað efni eftir hverja aðra. Núna langaði okkur að búa til eitthvað alveg glænýtt saman. Við vorum saman uppi í sumarbústað og ég sat á sófanum og byrjaði að plokka eitthvað á gítarinn. Nanna og Salóme fóru strax að syngja yfir þessa hljóma og textinn endurspeglar aðstæðurnar sem við vorum í. Það er mikil lukka að fá að upplifa svona augnablik. „

„Ferlið varð mjög eðlislægt,“ segir Nanna. „Það var engin ofhugsun, bara flæði. Ég er svo mikill aðdáandi bæði Rakelar og Salóme og algjör draumur að fá að gera þetta með þeim.“

Salóme Katrín bætir við: „Við sömdum þetta lag snemma í maí og mér finnst ég finna í því hvernig rómantík vetursins og spennan fyrir vorinu mætast. En rauði þráðurinn í laginu er samveran.“

Myndbandið við lagið fangar sama andrúmsloft og þegar lagið var samið en í því má sjá tónlistarkonurnar þrjár undirbúa matarboð í sumarbústaðnum fyrir sig og fleiri vini en vinahópurinn eldaði fjórar gómsætar máltíðir á 24 tímum að þessu tilefni. Matargnóttin vísar sömuleiðis til texta lagsins en hlustendur eru vísir til að fá vatn í munninn af lýsingunum.

RAKEL þarf vart að kynna fyrir íslenskum tónlistarunnendum enda hefur tónlist hennar reglulega ratað á topp vinsældarlista hér á landi, hún troðið upp með fjölmörgum þjóðþekktum tónlistarmönnum og hljómsveitum (s.s. Lón, Ceasetone, Nönnu úr Of Monsters And Men, Damon Albarn, Kaktusi Einarssyni, Axel Flóvent o.fl.) og hlotið ýmsar viðurkenningar og verðlaun fyrir tónlist sína. 

a place to be kemur út þan 17. október næstkomandi á vegum OPIA Community.

Hlusta: pickled peaches

Hlusta: rescue remedy & i am only thoughts running through myself (fyrri smáskífur af væntanlegri plötu, a place to be)

COMMENTS